Framkoma rúv í boði stjórnarflokkanna

Margir í stjórnarflokkunum eru æfir út í RÚV vegna þeirrar alvarlegu slagsíðu sem birtist í Kastljósi nokkrum dögum fyrir kosningar. Ljóst er að stórviðtal við refsinornina Evu Joly var alger tímaskekkja og ekkert annað en pólitískt hneyksli að mati Náttfara. Eva Joly komst upp með það að staðhæfa út og suður um nokkur mál sem hún vissi greinilega ekkert um enda eru 5 ár liðin frá því hún veitti vinstri stjórninni “ráðgjöf”, dvaldi þá nokkrar vikur hér á landi og þáði þóknanir fyrir sem námu meira en 100 milljónum króna.

Ekki tók betra við þegar Kastljós lagði annan þátt undir átta ára gamla frétt um símtal milli Davíðs Oddssonar og Geirs Haarde. Ekkert nýtt kom fram í þeim þætti annað en staðfesting á trúnaðarbroti starfsmanns Seðlabankans sem er eiginmaður frænku Bjarna Benediktssonar. Það hefði mátt gera stutta frétt um það út af fyrir sig en engin rök voru fyrir því að leggja heilt Kastljós undir þessa upprifjun á liðnum atburðum. Ekki verður annað séð en með þessum tveimur Kastljósþáttum sé verið að koma inn hjá kjósendum vondum straumum gagnvart Sjálfstæðisflokknum rétt fyrir kosningar. Helgi Seljan kann sitt fag þegar kemur að því að rétta félögunum í VG hjálparhönd á ögurstundu í boði RÚV.

Ýmsir úr stjórnarflokkunum hafa farið mikinn í fjölmiðlum út af þessu. Svo sem Vigdís Hauksdóttir sem hefur verið gagnrýnin á RÚV um árabil. Þá sagði Brynjar Níelsson að Ríkisútvarpið væri stjórnmálahreyfing. Einnig skrifaði Týr hjá Viðskiptablaðinu langa grein um málið og rifjaði sitthvað fróðlegt upp. Fleira í þessum dúr hefur heyrst úr herbúðum stjórnarflokkanna. 

Náttfari vorkennir ekki stjórnarflokkunum út af þessu?  

Þeir hafa haft öll völd hjá RÚV allt yfirstandandi kjörtímabil. Menntamálaráðherra hefur æðsta vald í málefnum RÚV. Hann lét skipa nýtt útvarpsráð þegar í upphafi kjörtímabils. Ráðið var skipað Framsóknarmönnum og Sjálfstæðisfólki að meirihluta. Gengið var í að skipta um útvarpsstjóra og Páll Magnússon rekinn. Það var skiljanleg ráðstöfun í ljósi þess hvernig hann hafði leitt RÚV inn á brautir stuðnings við fyrri ríkisstjórn, Jóhönnu og Steingríms.

En hvað var gert meira til að færa fréttaflutning RÚV yfir á óháða braut eins og ætlast er til lögum samkvæmt. Ekkert. Sama fólkið og þjónaði vinstri stjórninni hélt áfram, hefur farið varlega lengst af kjörtímabils og stekkur svo fram á örlagastundu með þeim hætti sem að framan er lýst.