Frændur vilja landsbyggðrskatt

Smá saman er að renna upp fyrir fólki að fyrirhuguð hækkun á VSK úr 11% í 24% á ferðaþjónustuna er fyrst og fremst landsbyggðarskattur. Það mun gera ríkisstjórninni erfitt fyrir og því virðist vera nánast ófært að halda þessum hugmyndum til streitu.

 

Í Morgunblaðinu laugardag kemur skýrt fram að þingmenn Sjálfstæðisflokksins á landsbyggðinni eru orðnir hræddir við áhrifin. Væntanlega hefur ferðþjónustufólk á landsbyggðinni gert þingmönnunum grein fyrir því að gangi þetta fram, verði tekið harkalega á þeim heima í kjördæmunum. Dettur einhverjum í hug að hugmyndum um hækkun álaga á sjávarútveg um 16 til 20 milljarða á einu bretti yrði tekið fagnandi? Þarf að búast við því að ferðaþjónustan taki slíkum álögum átakalaust?  Varla. 

 

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í landsbyggðarkjördæmunum eru að átta sig á þessu. Þeir eru 10 talsins. Þrír í hvoru norðurkjördæmanna og fjórir í Suðurkjördæmi. Þessir þingmenn munu stöðva hugmyndir frændanna Bjarna og Benedikts um hækkun VSK á ferðaþjónustu. Þeir óttast pólitískar afleiðingar málsins.

 

Ekki svo að skilja að þingmenn höfuðborgarsvæðisins séu allir hrifnir af hugmyndinni. Síður en svo. Vinstri grænir eru alltaf með skattahækkunum og einnig Oddný Harðardóttir sem var sú eina sem talaði fyrir hækkun VSK á ferðaþjónustu FYRIR kosningar. En aðrir þingmenn eru ekki spenntir fyrir þessu. Þannig eru Framsóknarmenn mótfallnir. Væntanlega er ekki þingmeirihluti fyrir breytingum á VSK-kerfinu með þessum hætti.

 

Samkvæmt heimildum Náttfara innan úr stjórnarflokkunum, þá vilja flestir þvo hendur sínar af þessu máli nema frændurnir Bjarni Benediktsson og Benedikt Jóhannesson. Þeir eru samstiga í þessu. Bjarni hafði látið vinna að þessari breytingu fyrir kosningar meðan hann var fjármálaráðherra en lét ógert að nefna það FYRIR kosningar. Benedikt virðist hafa tekið undir þessa stefnu og talar ákveðið fyrir henni. Félagar þeirra í ríkisstjórninni og stjórnarþingflokkunum vilja sem minnst af þessu máli vita.

 

Benedikt segir í viðtölum að ferðaþjónustan þurfi að sætta sig við að búa í sama skattaumhverfi og aðrar atvinnugreinar.

 

Gott og vel. Ferðaþjónusta er gjaldeyrisöflunargrein eins og sjávarútvegur og stóriðja. Ferðaþjónusta er í raun og veru útflutningsgrein. Greiða sjávarútvegur og stóriðja VSK. Nei. Greiðir ferðaþjónusta VSK. Já, 11% sem var byrjað að leggja á greinina þann 1. janúar árið 2016. Frændurnir vilja svo taka næst skref á miðu næsta ári og hækka VSK á ferðaþjónustu upp í 24% en tala svo um að lækka hæsta þrepið í 22,5% síðar.

 

Hér er á ferðinni einkar ósvífin hugmynd sem skekkir alla samkeppnisstöðu gagnvart öðrum útflutningsgreinum. Hafa þeir Bjarni og Benedikt einhverjar hugmyndir um auknar álögur á sjávarútveg og stóriðju sem eru hinar helstu útflutningsgreinar landsins? Nei. Það á einungis að ráðast gegn ferðaþjónustunni sem hefur verið bjargvbættur þjóðarinnar eftir hrun. Eru þeir búnir að gleyma hvaðan hagvöxtur liðinna ára hefur komið, hvernig atvinnuleysinu var eytt, hvernig kaupmáttur jókst og hvernig gjaldeyrisvarasjóður þjóðarinnar varða til?

 

Þeir halda vafalaust að þetta hafi allt saman orðið til innan veggja ráðuneyta og á Alþingi. En það er rangt.

Atvinnulífið kom þessu til leiðar, einkum ferðaþjónustan.

 

En hvers vegna er því haldið fram að hugsanleg VSK- hækkun yrði landsbyggðarskattur fremur en annað?

 

Það er vegna þess að lítil og veikburða fyrirtæki á landsbyggðinni munu ekki ráða við að taka á sig auknar álögur. Stóru fyrirtækin eins og hótelkeðjur eiga frekar möguleika á að takast á við áföll af þessu tagi. En lítli, skuldsett og veikburða fyrirtæki úti á landi munu ekki ráða við þetta. Þar er átt við gistiheimili, bændagistingar, lítil hótel, hvalaskoðunarfyrirtæki, fyrirtæki sem standa fyrir ferðum inn á hálendið og svo alla veitingastaðina sem byggja afkomu sína á ferðamönnum. Þessi fyrirtæki munu öll lenda í vanda.

 

Fyrir kosningar töluðu allir um að það þyrfti að dreifa atvinnutækifærum og starfsemi um landið. Það átti við um ferðamannastrauminn eins og annað. En núna ætla þeir frændur, forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann, að taka hönum saman um að leggja á LANDSBYGGÐARSKATT til að koma í veg fyrir það.

 

Aðrir þingmenn stjórnarflokkanna hljóta að stöðva áform þeirra. Þess vegna í samstarfi við stjórnarandstöðuflokka eins og Framsókn.

 

Stundum þarf að hafa vit fyrir fólki. Einnig þeim stórættuðu.