Flokkurinn réttir sigurði kára glaðning

Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera ákaflega upptekinn af því að rétta fyrrverandi þingmönnum sínum margháttaðar ölmusur. Einkum þeim sem hafa fallið út af þingi. Flokksforystan aumkunnar sér yfir þá með því að koma þeim í launaðar stjórnir eða þá að fá þeim tímabundin verkefni á vegum þeirra ráðuneyta sem flokkurinn ræður hverju sinni.

Í þessum anda var Sigurður Kári Kristjánsson, sem var felldur út af þingi i kosningum vori 2009, nýlega kosinn til setu í stjórn Seðlabanka Íslands. Og nú hefur Jón Gunnarsson samgönguráðherra gert Sigurð Kára að formanni nefndar sem á .....”að skoða hvað við getum gert á vettvangi Samgöngustofu til þess að nýta betur skattfé almennings”, eins og haft er eftir ráðherranum. Ekki er að sjá að um vel skilgreint eða mikilvægt verkefni sé að ræða. “Skoða” eitthvað óljóst. En föllnum fyrrverandi  þingmanni er komið í vel launað viðfangsefni.

Þessu til viðbótar skipaði Bjarni Benediktsson, þá fjármálaráðherra, Sigurð Kára sem formann stjórnar Viðlagatryggingar Íslands sumarið 2015 til fjögurra ára. Þetta virðist ekki vera nóg því Sjálfstæðisflokkurinn barðist einnig fyrir því að Sigurður Kári yrði ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins um síðustu áramót þegar Þorsteinn Víglundsson hætti þar og gerðist þingmaður og ráðherra. Það tókst ekki því Samtök atvinnulífsins létu faglegt mat ráða niðurstöðu sinni.

Flokkurinn sér um sína. Þannig skipaði Jón Gunnarsson í aðra nefnd með óljóst verkefni. Þar var Gunnar I. Birgisson, fyrrum þingmaður og bæjarfulltrúi flokksins i Kópavogi, skipaður formaður til að “skoða” málefni Vegagerðarinnar.

Mörg önnur sorgleg dæmi mætti nefna. Hér verður látið nægja að minna á skipan Illuga Gunnarssonar í stjórn Byggðastofnunar þar sem hann er nú formaður og skipan Ragnheiðar Elinar Árnadóttur í stjórn Landsvirkjunar en þau hurfu bæði af Alþingi og úr ríkisstjórn eftir síðustu kosningar.

Einhverjir líta á þetta sem örgustu spillingu á meðan aðrir meta þetta sem pólitíska vorkunnsemi.

 

rtá