Flokkur lögfræðinga – vantar breidd

Einungis 16 bjóða sig fram til þátttöku í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna beggja kjördæmanna. Reykjavík var í áratugi höfuðvígi flokksins en sú tíð er löngu liðin. Flokkurinn hefur einungis 4 fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur og hefur aldrei notið minna fylgis þar í sögunni. Í kosningunum árið 2006 fékk flokkurinn 7 borgarfulltrúa, að ekki sé talað um áratugina þegar hann hafði 8-10 borgarfulltrúa vísa af 15.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú 3 þingmenn í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Eftirtaldir hlutu kosningu vorið 2013 fyrir flokkinn: Hanna Birna Kristjánsdóttir og Illugi Gunnarsson sem bæði hafa hrökklast úr stjórnmálum vegna misgjörða sinna á kjörtímabilinu, Pétur Blöndal sem er látinn, Brynjar Níelsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Birgir Ármansson.

Ef marka má niðurstöður skoðanakannana um þessar mundir, ætti flokkurinn að ná inn 5 mönnum í Reykjavík í komandi kosningum og tapa einum.

Athygli vekur hve einsleitur hópur býður sig fram í prófkjörinu að þessu sinni þar sem mikil lögfræðingaslagsíða einkennir. Náttfari spáir því að úrslit prófkjörsins og röð frambjóðenda verði svona:

Ólöf Nordal, Guðlaugur Þór, Áslaug Arna, Brynjar Níelsson, Birgir Ármansson, Sigríður Andersen og Albert Guðmundsson í 7. sæti. Varla er hægt að gera ráð fyrir að niðurstaðan verði langt frá þessu því aðrir frambjóðendur eru ekki líklegir til stórræða. Varla fara sjálfstæðismenn í Reykjavík að kjósa Guðmund Franklín Jónsson til forystu í flokki sínum.

Reynist spá Náttfara rétt, þá verða 5 líkleg þingsæti flokksins og 2 efstu varaþingsætin skipuð 5 lögfræðingum, einum laganema og Guðlaugi Þór sem er ekki löglærður.

Ekki verður sagt að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík bjóði upp á mikla breidd – þó með fullri virðingu fyrir lögfræðingum. Flokkurinn er ekki að bjóða fram neina af almennum vinnumarkaði, enga úr atvinnulífinu, enga úr íþróttahreyfingunni, enga úr verkalýðsbaráttu eða öðrum breiðfylkingum eins og tíðkaðist áður hjá flokknum meðan hann hafði fjöldafylgi í borginni.

Slagorð flokksins “STÉTT MEÐ STÉTT” er löngu steindautt. Nú er það einungis lögfræðingastéttin sem boðin er fram.