Færir nýtt ár okkur nýja tíma sátta?

Vaxandi sáttatónn í stjórnmálaleiðtogum okkar færir okkur vonir um betri tíð í stjórnmálum á Íslandi.

Samstarf á Alþingi um afgreiðslu fjárlaga og annarra mikilvægra mála bendir til þess að nýkjörið þing hafi metnað til að rífa andrúmsloftið í þinginu upp út farvegi skætings, málþófs, illsku og hefnda eins og því miður hefur einkennt umræðuna og vinnubrögðin frá hruni.

Þjóðin er búin að fá nóg af gamaldags átakapólitík og ætlast til uppbyggilegri  vinnubragða en tíðkast hafa á Alþingi hin síðari ár. Mælingar hafa sýnt að almenningur ber mjög lítið traust til Alþingis og það er óviðunandi staða.

Helmingur núverandi þingmanna er að taka sæti á Alþingi í fyrsta sinn. Því skyldi þetta fólk vilja bera ábyrgð á þeirri ömurlegu arfleifð sem blasir við? Auðvitað vill nýtt fólk setja nýjan og betri svip á stjórnmálin.

Náttfari vill alla vega trúa því að svo sé.

Þá eykur það mönnum bjartsýni að margir af fulltrúum gamalla og úreltra átakastjórnmála eru óðum að hverf úr sjónmáli í þjóðfélagsumræðunni. Þeirra verður ekki saknað á nýju ári.
Heldur ekki hinna sem enn rembast eins og rjúpur við staur þó þeim hafi tekist að mála sig alveg út í horn.

Vonandi tekst að ljúka myndun miðju- og hægristjórnar á næstu dögum þannig að alvörustjórn geti tekið til óspilltra málanna eftir það millibilsástand sem hér hefur ríkt frá í apríl 2016. Hér hefur í raun verið starfsstjórn í 9 mánuði sem er óviðunandi ástand.

Náttfari er fullur bjartsýni við áramót og trúir á betri og breytta tíma á vettvangi stjórnmálanna hér á landi.

Gleðilegt ár!