Kíktu við í göngugreiningu

Kvölds og morgna tannburstar fólk sig, fimmtu hverja viku er farið í klippingu og reglulega um helgar er bíllinn þrifinn hátt og lágt. Vaninn er manns annað eðli - og það gerir það að verkum að lífið verður oft að rútínu. Sumt vill því gleymast löngum stundum, oft kannski það vanalega sem fólk telur sig ekkert þurfa að hugsa um. Gangur fótanna er þar á meðal. Okkur finnst ekkert sjálfsagðara en að geta gengið og sjaldnast er nokkur maður, sem yfirleitt hefur lært að ganga, ekkert að pæla í því hvort hann gengur rétt. Engu að síður er það svo að undirliggjandi stoðkerfisvanda má gjarnan rekja til þessarar undirstöðu hvers líkama; fótanna og fótleggjanna. Í langtum fleiri tilvikum en margir halda eru fótleggir fólks mislangir og munar þar stundum fáeinum sentimetrum, en oftar þó all nokkrum millimetrum sem engu að síður geta leitt til vandræða upp eftir stoðkerfinu. Þá er fótlag fólks með ýmsum hætti og breytist stundum með aldrinum en það hefur veruleg áhrif á göngulag. Sjúkraþjálfarar og hnykkjarar benda æ fleira fólki á að nýta sér þá fagmannlegu þjónustu sem fjölmörg göngugreiningarfyrirtæki á Íslandi bjóða upp á nú um stundir. Þeim fer ekki einasta fjölgandi heldur er tækjabúnaðurinn hjá þeim orðinn mjög háþróaður og nemur minnstu frávik í lögun fóta og leggja. Það borgar sig fyrir alla að panta tíma í göngugreiningu, en foreldrar barna og ungmenna eiga kannski öðrum fremur að hafa þetta í huga; lífsgæði geta aukist að miklum mun ef göngugalli er uppgötvaður í tíma.