Er miðjan málið?

Línur eru aðeins byrjaðar að skýrast varðandi möguleg stjórnarmynstur eftir kosningar. Útspil Pírata um síðustu helgi var vanhugsað skref og reynist vera algert vindhögg. Engum heilvita manni dettur í hug að unnt sé að ná samstöðu með 4 eða jafnvel 5 stjórnmálaflokkum á 12 dögum. Síðast þegar stórt pólitískt samflot heppnaðist hér á landi þá hafði það verið í undirbúningi í eitt til tvö ár. Þá varð R-listinn til árið 1994 og entist í 12 ár. Sá árangur byggðist á sterkum leiðtoga sem límdi hópinn saman og vönduðum undirbúningi.

Hvorugu er til að dreifa núna. Enginn undirbúningur og ruglingsleg staða varðandi hugsanlegan leiðtoga.

Útspil Pírata gerir þó gagn að að því leyti að nú þarf engum að dyljast að Píratar eru ekkert annað en hreinræktaður vinstri flokkur og það lengst til vinstri. Þeir gætu varla átt samleið með öðrum íslenskum stjórnmálaflokki en Vinstri grænum. Þessir tveir flokkar gætu verið að þróast í blokk sem kæmi saman gagnvart öðrum flokkum eftir kosningar þegar alvöru stjórnarmynduarviðræður hefjast.

Þá skiptir máli hvernig Viðreisn og Björt framtíð svöruðu málaleitan Pírata. Báðir flokkarnir höfnuðu viðræðum á þeim forsendum sem settar voru fram. Svör formannana, Benedkts Jóhannessonar og Óttars Proppé, voru með svipuðum hætti. Það er einnig að koma æ betur í ljós að Viðreisn og BF eru samstiga í nokkrum grundvallarmálum, þó stefna og áherslur séu mismunandi í ýmsum efnum. Þessir tveir flokkar ættu að geta unnið saman í ríkisstjórn eftir kosningar miðað við grundvallarhugsjónir þeirra.

Hægra megin við miðjuna eru svo núverandi ríkisstjórnarflokkar sem njóta einungis stuðnings 1/3 hluta þjóðarinnar. Miðað við síðustu skoðanakannanir er ríkisstjórnin kolfallin og því útilokað að hún haldi völdum áfram og þá með aðstoð þriðja flokksins. Varla þarf að ætla neinum íslenskum stjórnmálaflokki að vilja rétta núverandi ríkisstjórn hjálparhönd til að tryggja hér áframhaldandi óréttlæti og sérhagsmunagæslu eins og einkennt hefur fráfarandi ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Miðjuflokkarnir, Viðreins og Björt framtíð, gætu orðið í lykilstöðu við stjórnarmyndun eftir kosningar og hefðu þá val um að semja til hægri eða vinstri. Þeir myndu þá annað hvort semja við Sjálfstæðisflokk til hægri eða Vinstri græna til vinstri ef styrkur yrði nægur til myndunar ríkisstjórnar á annan hvorn veginn.

Ólíklegt er að eftirspurn verði eftir Framsókn eða Pírötum til stjórnarsamstarfs eftir kosningar, annars vegar vegna ferils Framsóknar í fráfarandi ríkisstjórn, spillingarmála fyrrverandi formanns og klofnings nú og svo hins vegnar vegna óaðgengilegra skilyrða sem Píratar setja fyrir samstarfi við aðra. Þeir hafa málað sig út í horn sjálfir og hjálparlaust.

Samfylkingin hefur ekki enn verið nefnd í þessu samhengi öllu. Það er m.a. vegna þeirrar miklu óvissu sem ríkir um framtíð flokksins. Verður Samfylkingin með fulltrúa sína á Alþingi eftir kosningar? Og hvað stendur Samfylkingin fyrir nú orðið? Helstu leiðtogar flokksins eru allir upprunnir í Alþýðubandalaginu og eru að margra mati í röngum flokki nú sem stendur. Eiga þeir ekki bara heima í Vinstri grænum? Eru þeir ekki á leiðinn þangað inn fyrr eða síðar?

Svör við öllum þessum spurningum fást fljótlega. En nú virðist líta út fyrir að MIÐJAN SÉ MÁLIÐ.

 

Náttfari