Elítuþrennan stakk gulla í bakið

Eftir að hafa verið á landsfundi Sjálfstæðisflokksins alla helgina og hitt fjölmarga, þá er ég alveg sannfærður um að frásögn Sveins Andra Sveinssonar, sem vitnað var í hér á hringbraut.is sl. sunnudag, er sönn. Sveinn heldur því fram að framboð til ritara hafi verið þaulskipulögð aðför að Guðlaugi Þór sem stýrt var af sjálfum formanni flokksins.

Hjálparkokkar formannsins voru búnir að reikna það út að með framboði Áslaugar Örnu tækist að safna saman þremur hópum á landsfundi sem gætu dugað til að fella Guðlaug Þór. Þar er vísað til ungliða, kvenna og andstæðinga Gulla. Trúlega hefði þetta geta orðið tvísýnt en Guðlaugur vék sér fimlega undan laginu og steig til hliðar. Það var óvænt. En megintilgangur flokkseigenda tókst, þ.e. að koma ritaranum frá. Hitt er svo annað mál að þeir reiknuðu aldrei með þessum viðbrögðum hans því draumurinn var að fella hann í kosningum og losna þannig við hann eins og Hönnu Birnu. Guðlaugur vann sér virðingu margra með því að stíga til hliðar og halda því fram að hann væri sæll og glaður að gefa ungu fólki tækifæri. Auðvitað meinti hann ekkert með því. En með snaggaralegum viðbrögðum náði hann að bjarga stöðu sinni í horn.

Þessi framkoma formannsins og annarra í flokkseigendafélaginu mun einungis leiða til enn frekari átaka í flokknum. Guðlaugur Þór er einn af þeim sem gefast aldrei upp og mótlæti eflir hann. Nú er ár til prófkjörs í Reykjavík. Hann mun nota tímann fram að því betur en aðrir og þá má búast við miklum átökum – lokauppgjöri milli fylkinga í flokknum. Í slíkum átökum er Guðlaugur miklu betri en hinir. Hann er með óvígan her í kringum sig á sama tíma og hinir eru það ekki. Illugi er svo laskaður að hann mun ekki hafa afl í mikla prófkjörsbaráttu, ef hann þá heldur áfram á annað borð. Verður væntanlega löngu kominn út úr ríkisstjórninni. Sama má um Hönnu Birnu segja. Staða hennar er afar veik og engin stemning í stuðningsmannaliði hennar. Svo á eftir að koma á daginn hvað Ólöf Nordal gerir í prófkjörsslag því hún hefur hingað til komist sinna ferða í flokknum án átaka, fengið flest upp í hendurnar átakalaust eins og varaformennskuna nú um helgina. Líklegt er að Ólöf telji það fyrir neðan virðingu sína að standa í prófkjörsátökum. Hún ætlast til að fá efsta sætið á silfurfati. Slíkt vanmat gæti orðið dýrkeypt.

Þegar framboð Áslaugar Örnu var komið fram fóru útsendarar Bjarna Benediktssonar á fulla ferð að kalla eftir stuðningi við hana og einnig að smala inn á fundinn fulltrúum sem áttu þar sæti en nenntu ekki að mæta. Ég hef heyrt í fólki sem fékk upphringingar frá þingmönnum, t.d. Jóni Gunnarssyni, með óskum um að koma á fundinn til að taka þátt í ritarakjöri. Við einn sagði hann: “Þú gerir þetta nú fyrir mig því þetta er einstakt tækifæri til að losna við Gulla.”

Því var hvíslað að mér á landsfundinum að fyrrum aðstoðarmaður Bjarna, Friðjón Friðjónsson hjá KOM, hafi skrifað ræðuna fyrir Áslaugu Örnu. Svo mikið þótti liggja við að allt væri gert með hárréttum hætti.

Nýja ritaranum skaut hratt upp í fremstu forystu flokksins. Hún hefur í raun og veru ekkert sýnt á sínum ferli. Hún er óskrifað blað nema að því leiti að öllum er ljóst að þarna fer galvösk, sjálfhverf og hrokafull ung kona sem er upptekin af sjálfri sér. Á hvað minnir þessi lýsing okkur? Jú, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er Hanna Birna nýrra tíma í Sjálfstæðisflokknum.

Hanna Birna fór hratt upp í flokknum og reyndar enn hraðar niður. Dramb er falli næst.