Ekki má gefa elliða afslátt af öryggisreglum

Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum vill að gefinn verði umtalsverður afsláttur af öryggisreglum vegna siglinga milli lands og Eyja um verslunarmannahelgina. Hann hefur komið fram með sinni hefðbundnu frekju og hótunum gagnvart þeirri stofnun sem á að gæta öryggis og tryggja að mannslífum sé ekki teflt í hættu.

Samgöngustofa hefur hafnað beiðni Eyjamanna um að nýta skip eins og það sem verið hefur í siglingum milli Reykjavíkur og Akraness í tilraunaskyni í sumar til siglinga milli lands og Eyja vegna þjóðhátíðar um komandi helgi. Skipið uppfyllir ekki Evrópureglur og er á undanþágu. En Elliði gefur ekkert fyrir það og krefst þess að skipið fái að sigla jafnvel þó með því sé verið að tefla öryggi farþega í tvísýnu.

Talsmaður Samgöngustofu hefur sagt í fjölmiðlum að siglingar milli Reykjavíkur og Akraness hafi verið leyfðar sem undantekning í tilraunaskyni meira í ætt við útsýnissiglingar en ekki til  stífra áætlunarsiglinga eins og vilji Eyjamanna stendur til. Út frá öryggissjónarmiðum gengur ekki að heimila siglingar milli lands og Eyja á skipi af því tagi sem notað hefur verið í sumar.

Elliði sættir sig ekki við úrskurð faglegra yfirvalda og hefur í hótunum. Hann hefur skotið málinu til samgönguráðherra og er þar með að reyna að færa það í póilitískan farveg. Hann ætlar að freista þess að beita flokksbróður sinn, Jón Gunnarsson samgönguráðherra, flokkslegum þrýstingi. Þvi verður ekki trúað á Jón að hann láti koma þannig fram við sig. Þeir sem þekkja ráðherrann vita að hann er þéttur á velli og þéttur í lund og ekki líklegur til að láta undan hótunum. Frekjan í Elliða mun vonandi ekki raska ró Jóns Gunnarssonar.

Því ber að fagna að þar til gerð yfirvöld gefi engan afslátt þegar kemur að öryggi farþega, hvort sem er á sjó, landi eða í lofti. Græðgi hagsmunaaðila má ekki ráða för. Eyjamenn beita öllum brögðum til að fá sem flesta til að veltast um á þjóðhátíð í alla vega ástandi. Yfirvöld geta ekki látið það trufla störf sín og ásetning um að fara eftir settum öryggisreglum.

Þegar öryggiskröfur eru látnar víkja fyrir þörfum hagsmunaaðila getur farið illa. Um það eru því miður sorgleg dæmi. Meðal annars í tengslum við þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

rtá