Finndu tröppurnar í hverfinu

Það getur vel verið að mörgum leiðist hamagangurinn og lætin á líkamsræktarstöðvum og kunni illa við alla svitalyktina sem þar svífur yfir fólki og tækjum. Eins kunna þeir hinir sömu að kvarta undan mánaðargjaldinu á þessum sömu stöðvum, sem sjaldnast fer nú lækkandi - og þá öllu síður prísinn á þeim fatnaði og skóm sem nauðsynlegur er til að falla sem best í hópinn. En þá er upplagt að huga að ódýrasta og einfaldasta æfingarkerfi sem fyrirfinnst á byggðu bóli. Í hverju íbúðarhverfi er að finna álitlegar tröppur, kannski ekki alltaf jafn tilkomumiklar og þær rösklega hundrað að tölu sem liggja neðan Akureyrarkirkju, en tröppur samt, svona fimmtán, kannski tuttugu að tölu, stundum gott betur. Tröppuganga stælir líkamann meira og betur en margar aðrar æfingar, kostar ekki neitt og kallar jafnframt á upplífgandi útivist. Kraftganga upp tröppurnar eykur úthald og vöðvastyrk og létt hlaup niður þær styrkir stoðkerfið. Þá eru tröppur nánast til þess gerðar að stunda teygjuæfingar í, hvort heldur er í tröppunum sjálfum, eða með aðstoð handriðsins. Þá er upplagt að nota tröppurnar í armréttur, en í hallanum eru þær tölubvert léttari en á jafnsléttu en styrkja efri hluta líkamans engu að síður. Já, skelltu þér í gamla jogging-gallann og úlpuna yfir og farðu í góða útiskó; annað þarf ekki til nema ef vera kynni hanska og húfu og svo er bara að trappa sig í gang.