Draumaríkisstjórn afturhaldsins

Fáum sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum dylst að draumastjórn afturhaldsins í landinu er þriggja framsóknarflokka vinstri stjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar.

 
Viltustu draumum afturhaldsins er vel lýst í ritstjórnargrein Morgunblaðsins í dag. Miðað við þann skýlausa svekkelsistón sem einkennir skrifin má öllum vera ljóst hver er höfundurinn. Fjallað er um stöðu mála í stjórnarmyndunarviðræðum sem staðið hafa yfir í sex vikur. Mestan þann tíma hafa Sjálfstæðisflokkur eða VG haft stjórnarmyndunarumboðið. Undir lok ritstjórnargreinarinnar segir:
 
“Eins og málum er komið í stjórnarmyndun færi sennilega best á því að forseti gerði forystumönnum tveggja stærstu flokkanna, Sjálfstæðisflokks og VG, ljósa ábyrgð sína. Þeir hefðu samtals 31 þingmann. Því væri þeim rétt að mynda öfluga minnihlutastjórn til vors. Best væri ef þeir fengju engan til að lofa að verja stjórnina. Það þarf aðeins einn til. Fáir myndu telja sér gagnlegt að bera fram vantraust.
 
Þessi stjórn gæti lýst því yfir að hún myndi halda í horfinu, eftir óhjákvæmilegar lágmarksbreytingar á fjárlögum. Að öðru leyti myndi hún kanna í raunhæfu verkefni samstarfs fram til vors, hvort þessir flokkar gætu starfað saman. Ef svo væri þá myndu flokkarnir breyta stjórninni í öfluga meirihlutastjórn. Reyndist þetta ekki fært þá mætti boða til kosninga eins seint í vor og fært þætti.”
 
Draumastjórn Árvakurs hf. er stjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar. Slík ríkisstjórn gæti tryggt algera kyrrstöðu. Engar breytingar yrðu gerðar í sjávarútvegi, landbúnaði eða á stjórnarskrá landsins. Ekki yrði litið á gjaldmiðlamálin, vextina eða stjórnarhætti í seðlabankanum sem eru á góðri leið með að leggja drög að nýjum efnahagsáföllum af mannavöldum. Það sem mestu skiptir er að ekki yrði snert við auðsöfnun sægreifanna sem hafa notið góðs af gjafakvótakerfi landsmanna um árabil.
 
Ekki þarf að taka fram að með tillögu leiðarahöfundar um að breyta minnihlutastjórninni í “öfluga meirihlutastjórn”, þá er átt við að bæta Framsókn við. Að sjálfsögðu. Hvað annað?
 
Náttfari hefur ekki trú á því að ríkisstjórn þriggja flokka gæti orðið öflug þegar tveir flokkanna eru klofnir. Ekki fer á milli mála að Framsóknarflokkurinn er klofinn niður í kjöl. Þar virðast átökin vera rétt að byrja. Og nú er einnig komið í ljós að VG er einnig klofinn flokkur. Gæslumenn sérhagsmuna sjávarútvegs og landbúnaðar mynda annan hluta flokksins en þéttbýlisþingmenn hinn hlutann. Þá hefur tíminn eftir kosningarnar leitt í ljós að Katrín Jakobsdóttir, hinn geðþekki og vinsæli formaður VG, ræður ekkert við flokk sinn. Hún hefur ekki til að bera þá forystuhæfileika sem þarf til að ráða við pólitíska refi og úlfa á borð við Steingrím Jóhann og Björn Val. 
 
Fyrir fjórum árum kallaði sami leiðarahöfundur Morgunblaðsins og sá sem pantaði minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og VG, Katrínu Jakobsdóttur “gluggaskraut” þegar hún tók við formennsku í flokknum þegar hann var á góðri leið með að hverfa undir forystu Steingríms Sigfússonar.
 
Annað hvort hefur Morgunblaðið skipt um skoðun og sér eftir dónaskapnum frá vorinu 2013, eða þá telur blaðið að “gluggaskraut” sé það sem þarf til forystu fyrir ríkisstjórn Íslands nú um stundir.
 
Ekki tókst að mynda fimm flokka stjórn vegna óhóflegra krafna VG um stórfelldar skattahækkanir og aukningu ríkisútgjalda umfram það sem ábyrgt getur talist. Varla þarf að gera ráð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn gæti eitthvað frekar kyngt slíkum skattahækkunarkröfum.
 
Krafa leiðarahöfundar Morgunblaðsins um minnihlutatjórn VG og Sjálfstæðisflokks er því fullkomlega óraunhæf. 
 
Því verður ekki trúað á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, að hann taki við fyrirmælum af þessu tagi ofan úr Hádegismóum. 
 
Nú fær hann tækifæri til að kveða niður í eitt skipti fyrir öll þær sögusagnir að skuggastjórn sé við völd í Sjálfstæðisflokknum.