Ólafur ragnar lýsir frati á stjórnmálaflokkana

Ákvörðun Ólafs Ragnars frá í gær sýnir að hann hefur afar lítið álit á núverandi stjórnmálaflokkum. Fáum dylst að hann treystir þingheimi ekki. Honum líst ekkert á blikuna og hann þorir ekki að sleppa hendinni af íslenskum stjórnmálamönnum sem hann virðist telja hálfgerða óvita.

Hann minnti vísvitandi á möguleikann á utanþingsstjórn. Hann sveiflaði því beitta sverði. Í máli sínu á þessum sögulega blaðamannafundi á Bessastöðum fór hann ekki dult með þá skoðun að mikil hætta væri á stjórnarkreppu að loknum kosningum eftir hálft ár. Þetta er fáheyrt og sýnir vantrú hans á stjórnmálaflokkunum.

Við þær aðstæður ætlar hann að halda verndarhendi yfir þjóðinni og skipa Má Guðmundsson vin sinn í stöðu forsætisráðherra utanþingsstjórnar.

Viðbrögð við útspili Ólafs eru blendin.
Mörgum er léttir, öðrum svellur móður.