Davíð er loksins á förum

Ofan úr Hádegismóum berast nú þær fréttir að Davíð Oddsson láti af starfi ritstjóra Morgunblaðsins um mitt þetta ár. Starfsfólki og eigendum er mikill léttir út af þessu enda var gert ráð fyrir starfslokum hans um síðustu áramót. Davíð verður 70 ára þann 17. janúar nk.

Eftir að Davíð galt afhroð í forsetakosningum síðastliðið sumar, þótti honum of veikt að hætta á Morgunblaðinu svo skömmu eftir að hafa tapað þeim kosningum og lent í fjórða sæti með einungis 13,4% atkvæða. Hann ákvað því að halda áfram enn um sinn en nú mun sjá fyrir endann á þessum mjög svo umdeilda ritstjóraferli sem kostað hefur Morgunblaðið nær helming áskrifenda sinna og valdið rekstrartapi sem telur í stjarnfræðilegum fjárhæðum sem sægreifar hafa þurft að greiða.

Davíð reyndi að beita blaðinu Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum til framdráttar í alþingiskosningunum fyrr í vetur og svo í þeim tilgangi að mynduð yrði afturhaldsstjórn þeirra og VG þegar ljóst varð eftir kosningar að ekki yrði unnt að mynda stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Það tókst ekki eins og kunnugt er, þó Morgunblaðið hafi gert sitt. Það dugaði ekki til.

Samkvæmt heimildum Náttfara hefur Davíð átt sér þann þann draum að sprengja núverandi ríkisstjórn. Hann mun nú hafa gert sér það ljóst að stjórnin er traust í sessi og hefur mjög styrkt stöðu sína með afnámi hafta sem hún framkvæmdi af festu og myndarskap. Mörgum er orðið það ljóst að unnt hefði verið að afnema höftin á miðju ári í fyrra en þá var þáverandi ríkisstjórn hálflömuð og í raun og veru ekki annað en starfsstjórn. Fumlaus vinnubrögð núverandi ríkisstjórnar við afnám haftanna hafa sýnt veikleika fyrri stjórnar í nýju og enn skýrara ljósi.

Vangaveltur hafa verið um það hvort Morgunblaðið muni ráða ritstjóra í stað Davíðs. Nefndir voru til sögunnar nokkrir menn, einkum fallnir ráðherrar og fyrrverandi stjórnmálamenn. Talið er að enginn verði ráðinn í stað Davíðs þegar hann hættir. Haraldur Jóhannessen mun væntanlega stýra blaðinu einn. Rætt hefur verið um að hætta birtingu vikulegs Reykjavíkurbréfs sem Davíð hefur skrifað hin síðari ár en þau hafa einkum gengið út á varnarræður hans og gamlar sögur frá þeim tíma þegar hann var og hét sem valdamikill stjórnmálamaður. Skrif þessi hafa verið krydduð með fimmaurabröndurum Davíðs sem hafa orðið sífellt þreyttari og jafnvel óskiljanlegir á stundum.

Spennandi verður að fylgjast með Morgunblaðinu ganga til móts við nútímann þegar Davíð hverfur þaðan.