Breyttu daglegri rútínu

Flest heilsuráð ganga ekki upp nema þú getir púslað þeim inn í þína daglegu rútínu. Sem dæmi, þeir sem þurfa að auka við hreyfingu yfir daginn þá mæli ég með að vakna 15 mínútum fyrr á morgnanna og taktu stuttan göngutúr fyrir vinnu, út götuna og til baka. Ferska loftið og hreyfingin kemur líkamanum í gang og byrjunin á deginum verður margfalt betri. Einnig er nauðsynlegt fyrir fólk sem situr í vinnu að standa upp á klukkustunda fresti og fara jafnvel upp og niður stigaganginn, ef það er enginn stigi þá ganga 500 skref á staðnum eða jafnvel ganga fram og ná sér í vatnsglas.

Finna fyrirmynd

Þeir sem eru komnir yfir 30 ára aldur og eru hraustir eru ekki bara heppnir. Þeir hafa lagt sig fram í að halda líkamanum í góðu formi og því er um að gera að læra af þeim. Athuga hver þeirra rútína er og reyna að tileinka sér hana og með tímanum nærðu sama árangri. Muna að það þarf að gefa sér góðan tíma í allar breytingar, það eru engar skyndilausnir. Það þarf samt einnig að hafa í huga að jafnvel þótt að allir væru með sama mataræði og myndu hreyfa sig eins þá myndu ekki allir líta eins út. Við erum eins misjöfn og við erum mörg og það að verða heilbrigðari þýðir ekki að vera léttari, vertu því ánægður með líkamann þinn eins og hann er. 

Það er aldrei of seint að læra

Það að halda heilastarfseminni virkri er mjög hollt fyrir þig. Þeir sem eru eldri og fara í nám standa sig iðulega mjög vel, þeir vita hvernig á að læra og hafa jafnvel ekki lítil börn eða jafnmikið á sinni könnu og geta því helgað sig lærdómnum. Ég mæli með að skrá sig í námskeið eða jafnvel háskólann, það er mjög gefandi og styrkjandi að bæta við sig menntun. 

Ekki gleyma að njóta líðandi stundar

Lífið er núna, ekki vera það upptekinn af markmiðum að þú gleymir ferðalaginu. Njóttu hvers dags og taktu á móti hverjum degi fagnandi.