Bretar í frjálsu falli

Það er að koma æ betur í ljós hve mikil mistök Bretar gerðu með því að samþykkja úrsögn landsins úr ESB í þeirri vanhugsuðu þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór á síðasta ári.
 
Ráðamenn þjóðarinnar vita ekki sitt rjúkandi ráð. Tala nú um að þeir ætli að gera samninga út og suður, við ESB-ríki og önnur utan sambandsins eins og það sé ekkert mál. Það er eins og þeir geri sér ekki ljóst að eðli samninga er með þeim hætti að það þarf minnst tvo til að unnt sé að gera samninga. Það gerir enginn samninga við sjálfan sig. Bretar geta reynt en það mun ekki skila þeim neinu.
 
Ætla má að ESB-ríkin hafi takmarkaðan áhuga á að greiða götu Breta eftir að þeir hafa sýnt þeim fingurinn. Víst er að ESB-ríkin munu ekki leggja lykkju á leið sína til að bjarga Bretum út úr þeirri sjálfheldu sem þeir hafa komið sér í.
 
Eftir BREXIT niðurstöðuna á síðastliðnu sumri hefur allt farið niður á við hjá Bretum. Sterlingspundið þeirra hefur hrunið, atvinnuleysi hefur aukist, hagvöxtur fer minnkandi, fólksflótta verður vart frá fjármálafyrirtækjum og stærri fyrirtæki munu flytja höfuðstöðvar sínar til annarra ríkja. Þetta er að verða áberandi meðal stærri banka sem eru í óða önn að koma sér fyrir í Frankfurt, París og Sviss með starfsemi sína sem hefur lagt grunn að öflugri miðstöð frármála sem hefur verið að eflast í London á síðustu árum og áratugum. Ætla má að forysta Breta á þessu sviði muni tapast á skömmum tíma og færast yfir á meginland Evrópu.
 
Mikil óánægja er með úrsögnina hjá Írum og Skotum. Líklegt er að þessir atburðir leiði til þess að Írar og Skotar segi skilið við Bretland og skilji þá eftir eina í niðursveiflunni. Á síðustu öld var talað um breska heimsveldið. Því hnignaði hratt og þá var farið að tala um breska samveldið sem kvarnast stöðugt úr. Ef Skotar og Írar yfirgefa þá núna, þá stefnir gamla heimsveldið í að verða hálfgert “smáveldi” í Evrópu, utangarðs og einangrað.
 
Víða á meginlandi Evrópu er því fagnað að Bretland gangi út. Þeir eiga ekki svo mikla samleið með ríkjunum á meginlandi Evrópu. Þeir eru skrítnir eyjaskeggjar. Skrítnari en við á Íslandi að því leyti að þeir aka á vinstri vegarhelmingi þegar nær allir aðrir í heiminum nota hægri umferð. Þeir geta ekki verið eins og aðrir. Þeir eru að dragast aftur úr á mörgum sviðum. Þeir eru gamaldags og staðnaðir. Það er því alveg í stíl að þeir geti ekki átt samleið með nágrönnum sínum í Evrópu og gangi úr ESB í einhverju vanhugsuðu fáti.
 
Verði þeim að góðu: Megi þeir áfram notast við sitt fallandi Sterlingspund, aka á vinstri vegarhelmingi og vera  skrítnir og öðruvísi á sem flestum sviðum. Aðrar þjóðir munu ekki hlaupa til og gera við þá viðskiptasamninga eftir að þeir hrekjast út úr ESB vegna eigin mistaka.
 
Utanríkkisráðherra Íslands ætti að hafa þetta allt í huga og fara sér hægt í að gefa yfirlýsingar um það að Íslendingar ættu að leggja sig fram um að gera nýja samninga við Breta. Í því efni liggur ekkert á.