Blindöskuþreifandi veikur

Fjölmiðlar hafa undanfarna daga velt sér upp úr ógæfu þingmannsins Ásmundar Einars Daðasonar sem varð fyrir því að kasta upp í flugvél WOW-AIR á leið heim frá Ameríku.

 

Frásögnum af þessum leiðinlega atburði ber ekki saman. Sumum fjölmiðlum finnst skemmtilegast að fullyrða að þingmaðurinn hafi verið sauðdrukkinn, enda bóndi. Sjálfur segist hann hafa verið veikur og á lyfjum og enn aðrar frásagnir ganga út á að hann hafi verið veikur, á lyfjum og drukkið ofan í það með fyrrgreindum afleiðingum.

 

Náttfari dæmir ekki um sannleiksgildi þessara frásagan en fyrir honum rifjast upp gömul saga frá árinu 1991 eða 1992.

 

Íslendingar urðu heimsmeistarar í bridge-íþróttinni og komu heim með mikinn verðlaunagrip sem hefur heitið Bermuda-skálin. Ríkisstjórninni þótti við hæfi að nýbakaðir heimsmeistarar fengju virðulega móttöku við komuna til Keflavíkurflugvallar. Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson sátu mikla veislu í ráðherrabústaðnum sama kvöld en létu aka sér beint þaðan út á flugvöll til að taka á móti meisturunum að viðstöddum fjölmiðlum, þar sem sjónvarp og útvarp voru með beinar útsendingar.

 

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, hafði orð fyrir þeim félögum og flutti hamingjuóskir ríkisstjórnarinnar og allrar þjóðarinnar. Engum duldist að vel hafði verið veitt í veislunni sem þeir Jón Baldvin komu beint úr. Ráðherra var þéttfullur.

 

Þetta vakti mikla athygli og hneykslan sumra. Davíð mætti í útvarpsviðtal daginn eftir og þvertók fyrir að hafa verið fullur. Sagðist hafa verið lasinn og á sterkum lyfjum. Þar við sat.

 

Hagyrðingur gerði af þessu tilefni limru sem lögð var Davíð í munn:

 

Líf mitt er fjölmiðlaleikur,

langoftast sýnist ég keikur.

En mér brá 

er ég sá

að ég birtist á skjá

svona blindöskuþreifandi – veikur.