Blautir draumar framsóknarvölvunnar

Stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna eru orðnir svo örvæntingarfullir vegna lélegs gengis flokka sinna að þeir geta ekki lengur leyft græskulaust gaman eins og völvuspá án þess að troða inn pólitískum áróðri. Nú birtist áróðurinn í sinni allra ódýrustu mynd í svonefndir\" Völvuspá DV\" um áramótin. Óhætt er að segja að um sé að ræða viltan óskalista framsóknarflokkanna tveggja sem skipa núverandi ríkisstjórn.

Lítum á nokkur dæmi úr málgagni Framsóknarflokksins, DV:

Sigmundur Davíð er “ólíkindatól” sem styrkir stöðu sína og Bjarni Benediktsson mun vaxa í hlutverki formanns Sjálfstæðisflokksins. Hins vegar missa Píratar flugið, Björt framtíð á ekki framtíðina fyrir sér og Árni Páll lifir ekki árið sem formaður Samfylkingar. Þá er Steingrímur J. “hornkerling í stjórnmálum og hans tími er liðinn.” Ekkert annað!

Þá er mikið gert úr erfiðleikum Dags B. Eggertssonar og Reykjavíkurborgar og á óskalistanum er að tveimur bankastjórum verði bætt við í Seðlabanka Íslands “sem stjórnarflokkarnir verða ánægðir með.”

Þegar kemur að umfjöllun völvu ríkisstjórnarinnar og DV um fjölmiðla herðist enn óskhyggjan:

“Magnús Geir er ekki líklegur til að verða útvarpsstjóri út árið. Leitað verður til Eyþórs Arnalds um að taka við keflinu.” Ekki ónýtt að láta sig dreyma um alvöru flokkskommisar!

“Fréttatíminn kaupir upp nokkra af smærri fjölmiðlunum. Kjarninn og Stundin koma upp í hugann.”

Góður draumur!  Losna við gagnrýna og málefnalega umfjöllun um axarsköft ríkisstjórnarinnar.

Og svo verður hagnaður á DV árið 2016 í fyrsta sinn frá því elstu menn muna, segir “völvan”.

 

Blautari verða draumar framsóknarmannana á DV ekki.