Bjarni verður að svara

Víglundur Þorsteinsson beinir spjótum að Bjarna Benediktssyni í athyglisverðri grein sem birtist í miðopnu Morgunblaðsins um helgina.

Hann gerir að umtalsefni augljósa þöggunartilburði stjórnarandstöðunnar og sumra fjölmiðla vegna umtalaðrar skýrslu sem kennd er við Vigdísi Hauksdóttur.

Víglundur staldrar einnig við þann fáheyrða atburð þegar ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, Guðmundur Árnason, hringdi í þingmann seint á föstudagskvöldi og hótaði honum æru-og eignamissi vegna ásakana sem fram koma í skýrslunni.

Víglundur segir í greininni að hótun sem þessi kunni að varða við almenn hegningarlög sem tilraun til að hindra störf þingsins. Víglundur er lögfræðingur að mennt.

Hann veltir einnig upp þeirri áleitnu spurningu hvort embættismaðurinn hótaði þingmanni Sjálfstæðisflokksins með eða án vitundar yfirmanns síns, Bjarna Benediktssonar, og krefst svara Bjarna við því.

Víglundur segist í greininni ekkert hissa á að stjórnarandstaðan vilji hindra rannsókn málsins enda margir í þeim hópi gerendur málsins. Og bætir svo við:

\"Hitt skiljum við Sjálfstæðismenn ekki af hverju Bjarni Benediktsson formaður flokksins sýnist vera að hjálpa þeim við það.

Bjarni þarf nú að svara vafningalaust. Undanbrögð eru ekki í boði. Hafi ráðuneytisstjórinn leikið einleik þarft þú að víkja honum úr starfi á meðan rannsókn fer fram. Hafir þú verið með í ráðum þurfið þið báðir að víkja.\"

Stórt er spurt.

Þekki Náttfari Bjarna Ben rétt - þá verður fátt um svör.