Bjarni þorir ekki í prófkjör

Deilur eru risnar milli sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi um það hvernig staðið verður að vali frambjóðenda flokksins á lista hans í komandi kosningum. Almenn krafa er um það í flokksfélögunum að fram fari hefðbundið prófkjör en forystan vill umfram allt losna við það.

Nefndar hafa verið hugmyndir um að kjördæmaráð flokksins velji á listann og þykir mörgum það bera vott um kjarkleysi forystunnar. Bjarni Benediktsson vill ekki þurfa að fara í gegnum prófkjör. Staða hans er veik af mörgum ástæðum, þar á meðal vegna Borgunarmálsins þar sem ættingjar hans högnuðust um ótrúlegar fjárhæðir á einkennilegum viðskiptum og eins vegna Tortólamála sem honum hefur gengið illa að tala sig út úr. Það yrði vont upphaf á kosningabaráttu ef formaður Sjálfstæðisflokksins fengi slaka útkomu úr prófkjöri eins og varð reyndin fyrir síðustu kosningar þar sem hann fékk innan við helming atkvæða í 1. sætið.

Forysta flokksins vill taka til á listanum sem þykir með afbrigðum veikur. Talið er að staða Jóns Gunnarssonar sé þó sterk hvort sem kemur til prófkjörs eða uppstillingar. Ekki er vitað um fyrirætlanir Ragnheiðar Ríkharðsdóttur en hún hefur verið upp á kant við flokksforystuna vegna afstöðu til Evrópumála. Af þeirri ástæðu hefur verið gegnið fram hjá henni varðandi ráðherradóm. Talið er hugsanlegt að hún hætti á þingi og eins er orðrómur um að hún fari í framboð fyrir Viðreisn sem yrði Sjálfstæðisflokknum mikið áfall.

Lítill spenningur er fyrir Elínu Hirst og Vilhjálmi Bjarnasyni. Þá þykir 1. varamaður flokksins, Óli Björn Kárason, ekki hafa mælanlegan kjörþokka.

Ekki er vitað hvaða fólki formaðurinn vill koma í vænleg sæti á listanum en ætla má að þar gætu verið á ferðinni einhverjir sveitarstjórnarmenn sem náðu árangri í byggðarlögum sínum vorið 2014.

Staðan er vandræðaleg fyrir Sjálfstæðisflokkinn og sjálfan formanninn skortir kjark.