Bjarni sóar skattpeningum eins og enginn sé morgundagurinn!

Formaður Sjálfstæðisflokksins eyðir fjármunum skattgreiðenda langt umfram það sem eðlilegt er. Sem fjármálaráðherra stýrir hann innstreymi og útstreymi ríkisfjármála og virðist ekki skilja að hann ber ábyrgð á því að skuldir ríkisins vaxa stöðugt undir hans stjórn. Það sem af er þessu ári hafa ríkisskuldir aukist um meira en 100 milljarða króna. Bjarna virðist þykja það í lagi og ætlast til þess að næsta ríkisstjórn glími við þennan vanda. Sjálfstæðisflokkurinn verður væntanlega ekki í þeirri ríkisstjórn.

Nú stendur Bjarni Benediktsson í orðaskaki við Gunnar Smára Egilsson, leiðtoga Sósíalistaflokks Íslands, og slær því fram að sósíalistar klári annarra manna fé. Sei, sei. Sjálfur sólundar Bjarni fjármunum skattgreiðenda með óábyrgum hætti og ætti því að láta vera að gagnrýna yfirlýsta sósíalista fyrir yfirlýsta stefnu sína.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur gefið sig út fyrir að vera ábyrgur í fjármálastjórn og lagt upp með þá sölumennsku í mörgum kosningum. Reyndar með takmörkuðum árangri eftir að Bjarni Benediktsson tók við formennsku í flokknum. Undir hans forystu hefur flokkurinn fengið lélegasta kjörfylgi í Íslandssögunni fimm sinnum í röð og einnig verið langt frá því að ná völdum í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem 40 prósent allra kjósenda í landinu búa.

Gunnar Smári er trúr sinni stefnu og Sósíalistaflokksins, sem er taumlaus eyðslustefna. Bjarni Benediktsson er ekki trúr stefnu Sjálfstæðisflokksins, sem er BÁKNIÐ BURT. Aldrei hefur báknið vaxið eins mikið og í formannstíð Bjarna Benediktssonar sem hefur leitt flokk sinn í það hlutverk að vera burðarás vinstri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Ekki bara einu sinni, heldur tvisvar.

Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar yngri er orðinn óttalegur sósíalistaflokkur. Bjarni hefur því varla efni á því að hreyta ónotum í Gunnar Smára sem er einungis trúr yfirlýstri eyðslustefnu flokksins sem hann stofnaði og stýrir.

Afrekaskrá Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, er á skjön við yfirlýsta stefnu flokks hans:

  • Bjarni Benediktsson ber ábyrgð á því að nú á að kaupa stórhýsi fyrir utanríkisráðuneytið niðri í bæ fyrir sex milljarða á dýrasta og besta stað í borginni. Ráðuneytið er núna í góðu húsnæði við Rauðarárstig og nákvæmlega engin þörf er á að flytja þaðan. Allir sem þangað hafa komið eða unnið geta borið vitni um að öll aðstaða er til fyrirmyndar. Bjarni er hins vegar staðráðinn í að sóa fjármunum almennings þvert á yfirlýsta stefnu Sjálfstæðisflokksins.
  • Bjarni, sjálfur fjármálaráðherrann, er einnig sekur um að leyfa forsætisráðuneytinu, í tíð Katrínar, formanns Vinstri grænna, að þenjast svo út að nú á að byggja við stjórnarráðshúsið við Lækjartorg óskapnað úr gleri sem mun skemma ásýnd gamla hússins, sem er friðað. Frá aldamótum hefur starfsmönnum forsætisráðuneytisins fjölgað úr 15 í 60, fjórfaldast. Enginn getur bent á að störf ráðuneytisins hafi batnað eða aukist á þessum tíma. En Bjarni er sáttur, sá sem á að passa ríkiskassann hefur engar athugasemdir við þetta.
  • Bjarni Benediktsson ber ábyrgð á því, ásamt öðrum ráðamönnum, að nú er verið að byggja stórhýsi fyrir starfsfólk Alþingis og þingmenn upp á 5 hæðir við hlið Alþingis, sem ætlað er að kosti 6 milljarða króna. Miðað við fyrri reynslu má ætla að kostnaðurinn endi í 10 milljörðum króna hið minnsta. Nú þegar er prýðileg starfsaðstaða til staðar fyrir þingmenn og starfsfólk Alþingis. Getur það talist forgangsverkefni að reisa monthöll fyrir þessa starfsemi á meðan heilbrigðiskerfið er fjársvelt og biðraðirnar lengjast út í óendanlegt?

Getur einhver bent á dæmi þess að gæði stjórnsýslunnar hafi aukist við allt þetta? Einhver?

  • Bjarni Benediktsson ber ábyrgð á því að styrkir til stjórnmálaflokka frá ríkinu hafa verið þrefaldaðir á síðustu árum. Flokkarnir eru ríkisreknir, enda kemur bróðurpartur tekna þeirra frá ríkinu. Væri þá ekki heiðarlegast að sameina alla flokkana í einn? Allt eru þetta hvort eð er sósíalistaflokkar sem keppast við að þenja út ríkisbáknið og auka ríkisskuldir – allt á reikning skattgreiðenda þegar upp er staðið. Í þessu eru Sjálfstæðisflokkurinn og formaður hans fremstir meðal jafninga. Væntanlega verður Bjarni Benediktsson búinn að forða sér þegar sá reikningur kemur. Við hin fáum að borga hann!

Einu sinni var slagorð Sjálfstæðisflokksins: BÁKNIÐ BURT!

Hvað gerðist?

- Ólafur Arnarson