Billeg loforð sigmundar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er greinilega illa haldinn af pólitískri örvæntingu þegar tvær vikur eru til kosninga.

Grein eftir hann í miðopnu Morgunblaðsins ber þess augljóst vitni. Það þarf varla að koma á óvart í ljósi þess að skoðanakönnunum ber nú saman um hrun Framsóknarflokksins sem hann leiddi þar til fyrir 2 vikum. Flestar kannanir spá Framsókn nú 7 þingmönnum hið mesta. Það þýddi að flokkurinn tapaði 12 þingmönnum á kjörtímabilinu - sem væri nýtt Íslandsmet en Samfylkingin tapaði 11 þingmönnum í Alþingiskosningunum árið 2013. 

Sigmundur Davíð leiðir lista Framsóknar í NAU-kjördæmi sem hefur verið sterkasta vígi flokksins í áratugi. Í kosningunum vorið 2013 náði flokkurinn 4 þingmönnum í kjördæminu sem var vel af sér vikið. Nú sýna kannanir að Sigmundur verði eini þingmaður flokksins í komandi kosningum.

Í þessari vandræðalegu stöðu á nú að lofa kjósendum landsbyggðarinnar miklum peningum úr ríkissjóði. Sigmundur leggur til að veiðileyfagjöld og önnur auðlindagjöld renni til landsbyggðarinnar en ekki til þéttbýlis.

Sigmundur Davíð vill ekki skilja að veiðileyfagjöld eru ekkert annað en leiga fyrir afnot af sameiginlegri auðlind ALLRAR ÞJÓÐARINNAR.
Fráfarandi ríkisstjórn lækkaði veiðileyfagjöldin úr 18 milljörðum í byrjun kjörtímabilsins í 5 milljarða.

Óraunsæ kosningaloforð Sigmundar Davíðs skipta sem betur fer engu máli núna því ekkert bendir til þess að hann eða Framsóknarflokkurinn verði í næstu ríkisstjórn.

Samkvæmt öllum skoðanakönnunum verður Framsókn í fríi frá þjóðinni næstu árin. Og þjóðin í fríi frá flokknum.