Aumur ræðst á rúv

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra er sá stjórnmálamaður hér á landi sem stendur nú höllustum fæti. Hann er rúinn trausti eftir að ítrekað hefur verið sýnt fram á fjármálasukk hans í tengslum við Orka Energy. Hann þáði fjárhagslega neyðarhjálp frá stjórnanda fyrirtækisins þegar hann var kominn í greiðsluþrot. Haukur Harðarson keypti þá af honum 70 ára gamla íbúð hans við Ránargötu í Reykjavík á 53 milljónir króna sem var langt yfir eðlilegu markaðsverði. Illugi dvelur áfram í íbúðinni ásamt fjölskyldu sinni og segist greiða kr. 230.000 á mánuði í leigu sem er undir markaðsverði húsaleigu fyrir eign sem kostar 53 m.kr. Fram hefur komið að Illugi hefur svo greitt götu Hauks og Orka Energy með óeðlilegum hætti með því að setja upp opinbera heimsókn til Kína að því er virðist gagngert til að þjóna hagsmunum fyrirtækisins. Þá var Orka Energy skipuð sem fulltrúi Íslands í jarðhitasamstarfi við Kína. Var öðrum gefinn kostur á því að taka þátt? Nei, þetta var sérsniðið fyrir vini Illuga. Ljóst er að ráðherra var algerlega vanhæfur til að fjalla um fyrirgreiðslu við þetta fyrirtæki eftir góðgjörning stjórnanda þess gagnvart honum.

Nú stendur yfir opinber heimsókn forseta Íslands til Asíu. Með honum í för eru fulltrúar frá 22 íslenskum fyrirtækjum úr ýmsum greinum atvinnulífsins. Íslandsstofa hélt utan um að bjóða fyrirtækjum þátttöku eins og tíðkast þegar um slíkar heimsóknir er að ræða. Þegar Illugi fór í sína ferð til Kína, þá voru einungis 2 fyrirtæki með í för. Orka Energy sem allt snérist um og svo Marel sem frétti af ferðinni og kom inn á síðustu stundu. Þetta sýnir svart á hvítu hvernig standa á að opinberum heimsóknum þar sem mörgum gefst kostur á að koma með eins og í tilviki forsetans og hins vegar hvernig á ekki að vinna eins og ferð menntamálaráðherra er æpandi vitni um. Með forsetanum eru fulltrúar fyrirtækja m.a. úr sjávarútvegi, flugrekstri, fragtsiglingum, okruiðnaði, öðrum iðnaði og þjónustu.

Það er svo rannsóknarefni út af fyrir sig hvers vegna menntamálaráðherra stendur fyrir því að greiða götu fyrirtækis í orkuiðnaði. Er það ekki verkefni iðnaðarráðherra ef einhver ráðherra á að koma að slíku verkefni? Þessi staðreynd gerir hagsmunatengsl Illuga og Orka Energy enn tortryggilegri.

Það er útbreidd skoðun að Illugi Gunnarsson eigi að víkja úr ríkisstjórn vegna þess fjármálasukks sem hér um ræðir. Hann situr enn og veldur flokki sínum ómældum skaða. Furðu vekur að formaður flokksins skuli ekki hafa vikið honum úr ríkisstjórn eins og Hönnu Birnu á sínum tíma. Er komið betur fram við karlmenn en konur í Sjálfstæðisflokknum? Er brýnna að þær séu með hreinan skjöld heldur en karlarnir? Illugi hefur orðið uppvís að tugmilljónavandræðamáli en fær samt að dvelja áfram í ríkisstjórninni. Sami flokkur knúði Albert Guðmundsson til að víkja út af mistakamáli sem á núverandi verðlagi nemur kr. 500.000. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn lét Albert víkja úr ríkisstjórn árið 1987, en hann var þá iðnaðarráðherra, hafði komið á daginn að starfsmaður í fyrirtæki sem Albert átti hafi  látið undir höfuð leggjast að gera skil gagnvart skattlagningu á umboðslaunum sem á núverandi verðlagi námu hálfri milljón króna. Albert átti fyrirtækið en kom á þeim tíma ekki að rekstri þess. Starfsmaðurinn gerði mistökinn en samt var Albert knúinn til afsagnar.

Er Sjálfstæðisflokkurinn árið 2015 farinn að gera svona miklu minni siðferðiskröfur til ráðherra sinna en tíðkaðist árið 1987?

Ráðherrann sem rúinn er trausti stendur nú fyrir skipulegri aðför að RÚV til að friða harðlínuöflin í Framsókn og Sjálfstæðisflokki sem leynt og ljóst vinna að því að lama RÚV til að freista þess að koma í veg fyrir fréttaflutning sem er ríkisstjórninni ekki hagfelldur. Vigdís Hauksdóttir hefur ítrekað talað af sér um þetta og viðurkennt að flokkur hennar vilji rústa RÚV og ekki hafa yfirlýsingar sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins einkennst af mikilli yfirvegun. Nægir þar að benda á Guðlaug Þór Þórðarson og Brynjar Níelsson sem sagt hafa margt vanhugsað um málið.

Sú skýrsla sem nú liggur fyrir um RÚV er enn ein skýrslan um stofnunina og í henni er fátt markvert að finna. Það er alltaf verið að skrifa skýrslur um RÚV án þess að þær hafi breytt miklu. Niðurstaðan að þessu sinni var pöntuð og mjög fyrirséð. Fenginn var innvígður og innmúraður flokkshundur, Eyþór Arnalds, til að leiða nefndina sem einnig var skipuð “sérfræðingi”, Svanbirni Thoroddssen, sem er barnabarn Gunnars heitins Thoroddsen. Hvorugur er sérhæfður á sviði útvarps-eða sjónvarpsrekstrar og hafa því ekkert sérstakt vit á verkefninu. Eyþór er eins og allir vita menntaður í klassískum sellóleik og þjóðþekktur tónlistarmaður. Það gefur honum ekkert forskot til að gerast dómari í málefnum RÚV.

Mikil ólga er innan RÚV vegna þessa og starfsfólkið telur að sér vegið. Þá hafa skoðanakannanir ítrekað staðfest að þjóðin styður RÚV í núverandi mynd. Það vakti mikla athygli að formaður RÚV sagði af sér þegar skýrslan kom út “vegna anna”. Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður, hafði skyndilega svona mikið að gera í öðru! Ingvi Hrafn er mætur maður og mikil eftirsjá er af honum. Hann er gamall vinur og samherji Illuga úr ungliðapólitíkinni en hefur nú greinilega fengið nóg af bröltinu í sínum gamla félaga. Hann ákvað alla vega að kveðja og þakka fyrir sig. Fróðlegt verður að sjá hver verður látinn axla formennskuna sem sannarlega er ekki öfundsvert verk. E.t.v. verður það Eiríkur Finnur Greipsson sem Illugi skipaði í stjórn RÚV enda er hann einn af þeim vildarvinum sem reynt hafa að hysja upp um ráðherrann á brösugum fjármálaferli hans.

Ein af þeim kenningum sem nú eru í gildi hljóðar þannig: Bjarni Benediktsson ætlar að láta Illuga ólmast gegn RÚV í nokkrar vikur með það að markmiði að gelda fréttastofuna og fréttatengda dagskrárgerð. Að því loknu verður honum skipt úr stjórninni eigi síðar en á ríkisráðsfundi á gamlársdag um leið og Ragnheiður Elín og Sigrún Magnúsdóttir ganga frá borði. 

Sjáum hvað setur. En á meðan er Illugi Gunnarsson lík í lest Sjálfstæðisflokksins.