Ari verður ekki formaður sa

Markaður Fréttablaðsins birti í vikunni slúður um að Ari Edwald vildi verða formaður Samtaka atvinnulífsins, ef Björgólfur Jóhannsson ákveður að láta af formennsku sem frekar er búist við.

Náttfari telur sig vita fyrir víst að Ari verði alls ekki formaður SA. Hann hefur engan stuðning til að gegna því mikilvæga og valdamikla embætti.

Á það er bent að útilokað sé að frjáls atvinnurekendasamtök geti sætt sig við að forstjóri einokunarfyrirtækis gegni formennsku í samtökunum.
Mjólkursamsalan hefur átt í stöðugum útistöðum við samkeppnisyfirvöld vegna markaðsmisnotkunar. Forstjóri slíks fyrirtækis gæti aldrei orðið trúverðugt andlit á frjálsum samtökum atvinnulífsins.

Metnaður Ara er mikill og hann er hvattur áfram af Þórólfi kaupfélagsstjóra á Sauðárkróki, sem réði hann til Mjólkursamsölunnar, og Moggaliðinu í Hádegismóum. En út fyrir þann hóp nær stuðningur við Ara ekki mikið.

Hætti Björgólfur formennsku, fá Samtök atvinnulífsins nýjan formann sem mun njóta víðtæks stuðnings og mikillar virðingar innan atvinnulífsins.

Ari Edwald er ekki sá maður.