Alltaf vondar niðurstöður

Línur skýrast um helgina varðandi uppröðun á lista Samfylkingar í þremur kjördæmum og Sjálfstæðisflokks í tveimur. Meiri en minni líkur eru á því að niðurstaðan verði veik í flestum tilvikum – jafnvel skelfileg fyrir þessa flokka.
 
Í flokksvali Samfylkingar í Reykjavík eru mestar líkur á að núverandi þingmenn verði í 4 efstu sætunum. Með því væri borin von að til endurnýjunar kæmi því ekki er flokkurinn að bæta við sig fylgi. Mjög frambærilegt ungt fólk tekur þátt í forvalinu eins og Eva Baldursdóttir og Magnús Már Guðmundsson en trúlega nær ekkert þeirra neinu af fjórum efstu sætunum sem Össur, Ingibjörg, Helgi Hjörvar og Valgerður Bjarnadóttir munu væntanlega hreppa. Meðalaldur þeirra um 60 ár!
 
Í Suðverstukjördæmi er staðan mun betri því þar mun nýr frambjóðandi koma í 2. sætið á eftir Árna Páli, trúlega Margrét Gauja Magnúsdóttir.  Staða flokksins í Norðvesturkjördæmi er vægast sagt skelfileg. Einungis þrír eru í framboði. Ólína Þorvarðardóttir vill efsta sætið og aðeins tveir aðrir gefa kost á sér. Ólína nýtur ekki mikilla vinsælda og því gæti Guðjón Brjánsson átt raunhæfa möguleika.
 
Hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðverstukjördæmi er eins víst að Bjarni Benediktsson og Jón Gunnarsson hljóti tvö efstu sætin með yfirburðum. En hvað gerist svo?  Engin öflug kona tekur þátt í prófkjörinu og því gæti það gerst að Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður hreppti þriðja sætið og þá væri listinn orðinn býsna karllægur. Ég tala nú ekki um ef Óli Björn Kárason, frambjóðandi einangrunarsinnana í flokknum, næði því fjórða. Flestir spá því að Elín Hirst nái ekki miklum árangri og talið er líklegast að Karen Halldórsdóttir úr Kópavogi verði efst af konunum. Verði þetta úrslitin, þá veikist staða Sjálfstæðisflokksins enn frekar í kjördæminu.
 
Mest er óvissan um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Hvernig sem fer þar, getur niðurstaðan aldrei orðið sigurstrangleg. Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra sem leiddi listann í síðustu kosningum er afar óvinsæl í kjördæminu og umdeild innan flokksins. Ef hún heldur efsta sætinu, þá verður listinn veikur. Verði hún felld, þá yrði það einnig áfall fyrir flokkinn því verið væri að hafna leiðtoga hans í kjördæminu frá síðustu kosningum og fórna sitjandi ráðherra. Það yrði mikill áfellisdómur og gæti gert vígstöðu flokksins vonlausa í kjördæminu. Takist annað hvort Ásmundi Friðrikssyni, Páli Magnússyni eða Árna Johnsen að fella hana, er vandséð hvernig þeir gætu sameinað flokkinn í Suðurkjördæmi á bak við sig. Þeir eru allir umdeildir, hver með sínum hætti. Ásmundur þykir öfgafullur, Páll er ekki sjálfstæðismaður og flokkurinn hefur áður hafnað Árna Johnsen.
 
Þá hafa ýmsir flokksmenn áhyggjur af því að Unnur Brá og Vilhjálmur Árnason nái ekki viðunandi árangri en þau njóta nokkurra vinsælda innan flokksins í Suðurkjördæmi. Þá óttast margir að nái Árni Johnsen ekki vænlegu sæti, gæti hann farið í sérframboð sem yrði flokknum dýrt. Sama gildir um Ásmund. Hann gæti tekið upp á sérframboði, verði honum misboðið.
 
Sama hvernig fer: Engin niðurstaða góð!