Alfreð, lija dögg og framsóknarmyglan

Glæsihús Orkuveitu Reykjavíkur er ónýtt. Borgin verður fyrir tveggja milljarða tjóni að því er virðist.

Húsið var reist sem minnisvarði um valdatíð Alfreðs Þorsteinssonar í borgarstjórn Reykjavíkur en hann var leiðtogi Framsóknar í borginni um árabil. Þegar R-listinn varð til undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur vorið 1994, þá tókst vinstri flokkunum að binda enda á valdaferil Sjálfstæðisflokksins í borginni. Frá þeim tíma hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki séð til sólar í borginni. Án Alfreðs hefði þetta ekki tekist.

Þegar Alfreð Þorsteinsson gerði sér ljóst að R-listinn yrði ekki til án Framsóknar þá seldi hann sig dýrt enda var hann klókur og allt að því ófyrirleitinn stjórnmálamaður eigin hagsmuna. Alfreð gerði kröfu um að hann fengi formennsku í Orkuveitu Reykjavíkur í sinn hlut og að hann fengi ótakmarkaðar heimildir til að gera það sem honum sýndist á þeim vettvangi. Þar á meðal var að reisa nýjar höfuðstöðvar sem yrðu eins konar minnisvarði um hann sjálfan. Ingibjörg Sólrún lét þetta léttilega eftir honum.

Alfreð fékk hugmyndina að minnisvarða um eigin valdatíð frá Davíð Oddssyni sem lét reisa montbyggingar sjálfum sér til dýrðar þegar hann var borgarstjóri. Þar er vísað til ráðhússins, Perlunnar og Viðeyjarstofu sem öll reyndust vera fjárfestingarmistök og bruðl af verstu gerð.

Eftir að R-listinn liðaðist í sundur árið 2006 eftir 12 ára samfellda valdatíð í Reykjavík, hefur verið fremur hljótt um Alfreð Þorsteinsson. Hann hvarf úr opinberri umræðu á Íslandi þar til í apríl 2016 að nafni hans skaut upp á yfirborðið að nýju þegar dóttir hans, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, var skyndilega gerð að utanríkisráðherra þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist frá völdum vegna fjármálahneykslis sem tengdist skattskjóli á Tortóla.

Mörgum þótti vægast sagt einkennilegt að manneskja sem aldrei hafði verið kosin til trúnaðarstarfa á vegum Framsóknar yrði allt í einu gerð að ráðherra. Ýmsir þóttust þarna kenna klókindi og slóttugheit Alfreðs pabba.

Lilja Dögg náði fljótlega kjöri sem varaformaður Framsóknarflokksins og er sögð vilja komast hærra. Hún fékk svo tækifæri til að bjóða fram krafta sína í Alþingiskosningunum í október 2016. Hún leiddi þá Framsóknarflokkinn í Reykjavík. Flokkurinn hafði sex þingmenn í borginni en undir forystu Lilju töpuðust fimm þessara þingsæta. Lilja komst ein inn á þing þegar kjósendur fengu sjálfir að velja.

Monthús Orkuveitunnar sem Alfreð lét reisa sem minnisvarða um valdatíð sína er myglað. Húsið er nánast ónýtt sem mannvirki og mun því hvorki standa áfram sem minnismerki um R-listann eða Alfreð sjálfan.

Davíð Oddsson hefur nú birt leiðara í Morgunblaðinu og krafist opinberrar rannsóknar á þessari Framsóknarmyglu. Hann talar um sóun á skattpeningum borgarbúa. Óhætt er að taka undir vandlætingu borgarstjórans fyrrverandi.

Væri ekki ráð að láta í leiðinni rannsaka önnur þungbær fjárfestingarmistök hjá Reykjavíkurborg eins og byggingu Perlunnar, ráðhússins og endurgerð Viðeyjarstofu sem fór algerlega úr böndunum?

Allt í borgarstjóratíð Davíðs.

 

Rtá