Það er erfiðara að sitja en standa!

Ábendingar stoðkerfisfræðinga:
Hversu oft sér fólk ekki ástæðu til þess að setjast niður í þeim tilgangi að hvíla sig. Það er eins og manninum sé fátt eðlilegra en að sitja á afturendanum og prísa sig sælan yfir því að þurfa ekki að standa á tveimur jafnlöngum heilu tímunum saman. Bergur Konráðsson kírópraktor, einn af sérfræðingum Lífsstíls, nýs heilsuþáttar á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, bendir hins vegar á að það kosti líkamann um 30 prósenta meira erfiði að sitja en standa; álagið á hrygginn aukist við það að tylla sér og margs konar stoðkerfisvanda megi einmitt fremur rekja til setu en stöðu fólks. Þar fyrir utan sitji fólk oft og tíðum ekki rétt í skrifboðrsstólnum eða á kollinum heima við eldhúsborð; ýmist renni það rassinum fram á stólbrún og sitji þannig í keng með efri hluta baksins á stólbakinu, eða það sitji frammi á stólbrúninni með bakið alltof fatt. Sú stelling sé álíka skaðleg stoðkerfinu og að sitja í keng, því í báðum tilvikum myndist spenna á hryggjarliðina; púðarnir á milli þeirra skili ekki tilætluðu hlutverki því álagið fari allt út á jarka hryggjarliðanna þar sem þófarnir eru þynnstir. Bergur og aðrir kírópraktorar benda því fólki á að standa oftar við skrifborðið en sitja, en þess utan að hreyfa sig reglulega, helst ekki sjaldnar en á klukkustundarfresti og teygja þá úr sér - eins og raunar öll önnur dýr gera eftir að afturendinn hefur verið hvíldur.