2007 er ekki að koma

Náttfari er ósammála þeim sem telja að árið 2007 sé að renna upp að nýju í efnahagslífi Íslendinga. Þeir sem halda því fram gera sér ekki grein fyrir lykilatriðum málsins.

Hinu er ekki að leyna að viss einkenni eru keimlík og hræða. Þar er ekki síst átt við háskalega vaxtastefnu Seðlabankans sem er hin sama núna og var á árunum fyrir hrun. Sú stefna leiddi til innstreymis erlendra fjármuna til landsins, fjármuna sem mynduðu svonefnda “snjóhengju” sem enn er verið að glíma við. Vonandi er loks núna verið að ráða niðurlögum þessarar snjóhengju sem Seðlabanki Íslands lagði grunninn að á árunum 2006 til 2008 undir forystu Davíðs Oddssonar þáverandi seðalbankastjóra.

Nú bregður svo við að Seðalbanki Íslands ákveður stýrivexti allt of háa, eins og fyrir hrun,  sem leiðir til innstreymis fjár frá erlendum bröskurum sem vilja nýta sér þann mikla vaxtamun sem boðið er upp á. Það er að myndast ný “snjóhengja” í stað hinnar sem verið er að reyna að láta hverfa. Menn hafa greinilega ekkert lært.

Þetta innstreymi á svo sinn þátt í styrkingu íslensku krónunnar sem nú er skráð allt of sterk. Það leiðir til verri afkomu útflutningsgreinanna og einnig til þess að innflutningsverðlag verður óeðlilega hagstætt. Það hvetur til eyðslu og fjárfestinga sem gætu átt eftir að koma landsmönnum í koll. 

Íslenska krónan er í höftum og verður það um ókomna tíð. Allt tal um að verið sé að aflétta höftum eru blekkingar. Verið er að greiða úr vandamálum sem tengjast slitabúum bankanna og það er að sönnu mikilvægt. En höftin eru ekki að fara. Þau eru að minnka eitthvað en þau eru alls ekki að fara. Er einhver að reyna að halda því fram að innan skamms geti allir fjármagnsflutningar til og frá landinu verið alveg frjálsir eins og tíðkast þar sem engin gjaldeyrishöft eru? Nei, enginn heldur því fram.

Við sjáum auðvitað hættumerki vegna of hárra stýrivaxta og afleiddra vaxtamunaviðskipta. Einnig styttist í kosningar og staða stjórnarflokkanna skv. skoðanakönnunum er afar veik. Víst er að ríkisstjórnin munu reyna að laga stöðu sína með því að ausa fjármunum úr ríkisstjóði í gæluverkefni út um allt land í þeirri von að það auki fylgi þeirra þegar til kosninga kemur eftir rúmt ár. Þetta verður réttlætt með minnkandi skuldum ríkissjóðs vegna þeirra fjármuna sem falla til við uppgjör slitabúa bankanna. Þetta er mjög hættulegur leikur.

Einnig reyna stjórnarflokkarnir að blekkja kjósendur með því að halda því fram þeir hafi skapað þann hagvöxt sem nú ríkir í landinu. Staðreynd málsins er sú að ferðaþjónustan ein og sér hefur skapað bætta stöðu þjóðarbúsins. Frá árinu 2011 hefur vöxtur ferðaþjónustunnar verið æfintýralegur og langt umfram spár og væntingar. Tvöföldun í fjölda ferðamanna til Íslands á síðustu 4 árum hefur nánast eytt atvinnuleysi í landinu, komið fjárfestingum af stað, stóraukið innstreymi gjaldeyris og skapað þann hagvöxt sem við njótum núna. 

Hvorki fyrri ríkisstjórn né núverandi eiga nokkurn þátt í þessari jákvæðu þróun. Stjórnmálamenn munu ekki komast upp með að reyna að þakka sér aukinn áhuga útlendinga á Íslandi og markvisst markaðs-og uppbyggingarstarf greinarinnar sjálfrar.

Það sem er einkum ólíkt með þenslunni núna og árið 2007 er staða helstu fyrirtækja landsins. Flest þeirra fyrirtækja sem nú eru skráð á Kauphöll Íslands ganga vel. Þau hafa verið að skila góðri afkomu, þau hafa flest verið að greiða niður skuldir og þau hafa almennt haft afl til að greiða hluthöfum sínum arð. Í fyrirtækjunum er raunveruleg fjármunamyndun. Sama gildir um fjölmörg önnur fyrirtæki í atvinnulífinu, t.d. mörg sjávarútvegsfyrirtæki, sem eru vel rekin og öflug.

Hluthafar fyrirtækja á Kauphöllinni eru ekki skuldsettir með sama hætti og fyrir hrun. Það var einn af helstu veikleikum efnahagslífsins á árunum 2006 til 2008 hve skuldsett kaup á hlutabréfum voru. Þegar á móti blés var þanþol hluthafanna og sjálfra fyrirtækjanna ekki nægilegt og því byrjaði fljótt að hrikta í. Keðjuverkun leiddi svo til hrunsins að lokum. Spilaborgin féll.

Nú er þessu allt öðru vísi farið. Fyrirtækin eru skuldlétt og hluthafarnir eru með mikið eigið fé í fjárfestingum sínum. Við þessar aðstæður er unnt að takast á við sveiflur án þess að hrikti í.

Árið 2016 gengur nú í garð. Við getum treyst á miklu heilbrigðara og traustara atvinnulíf en var árið 2007. Vandi okkar felst í rangri vaxtastefnu Seðalbanka Íslands ásamt ráðviltri og veikri ríkisstjórn. Við það verðum við að lifa – alla vega fram á vorið 2017.

Náttfari er þrátt fyrir allt bjartsýnn við áramót. Hann óskar landsmönnum öllum farsældar á nýja árinu