15 rúmum af 31 lokað á bráðageðdeild – „fólk veikist ekkert síður á sumrin“

Rétt tæplega helmingi rúma á deild 33A, einni af þremur bráðageðdeildum Landspítalans, verður lokað frá og með deginum í dag, og stendur þessi ráðstöfun fram yfir verslunarmannahelgi. Framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala segir um neyðarráðstöfun að ræða vegna skorts á fé og fagfólki, einkum hjúkrunarfræðingum. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir lokunina ekki forsvaranlega.

Um málið er fjallað í Morgunblaðinu í dag. Þar segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, að lokunin muni koma fólki með geðsjúkdóma afar illa og sé ekki í neinu samræmi við yfirlýsta stefnu yfirvalda um mikilvægi góðrar geðheilbrigðisþjónustu. „Þetta kemur mér í opna skjöldu og er alls ekki í takt við þörfina. Það er alls ekki forsvaranlegt að geðheilbrigðisþjónusta sé skert ár eftir ár. Það þarf að tryggja stöðugt fjármagn til geðheilbrigðismála,“ segir hún.

María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala, segir í samtali við Morgunblaðið að líklega sé um að ræða tíunda sumarið í röð þar sem fækka þurfi rúmum á deildinni, en að lokun þessa sumars vari þó skemur en oft áður. „Í fyrra þurftum við að loka í sex til sjö vikur og við höfum fundið það, þegar við höfum opnað öll rúmin aftur, að það er uppsöfnuð þörf, því þá leita gríðarlega margir til okkar,“ segir hún.

Anna Gunnhildur segir að Geðhjálp hafi ávallt mótmælt lokunum sem þessum og muni einnig gera það núna. Hún bætir við að það sé reynsla þeirra sem starfi hjá Geðhjálp að sumrin, ýmsir hátíðisdagar og frí þeim tengdum geti oft reynst fólki með geðraskanir erfiðari en aðrir tímar ársins. „Fólk veikist nefnilega ekkert síður á sumrin en á öðrum tímum ársins,“ segir hún.

Þörfin mikil

Venjulega eru rúm fyrir 31 sjúkling á deild 33A, en næstu fjórar vikurnar verða plássin 16. Meðalnýting rúma í fyrra á deildinni var 106 prósent, sem þýðir að oft liggi fleiri en 31 þar inni. Því er ljóst að þörfin er mikil.

Aðspurð um hvernig verja megi ákvörðunina um lokun tæplega helmings rúmanna þegar þörfin sé þetta mikil segir María að nýtingin hafi verið nokkru minni yfir sumarið. Hún hafi til dæmis verið 95 prósent í nýliðnum júní. „Sem er samt of mikið, því æskileg meðalnýting á bráðadeild á sjúkrahúsi er 85-90 prósent,“ segir hún.

María segist ekki hafa heyrt af því að alvarleg tilvik hafi komið upp í gegnum tíðina vegna lokana á deildinni. „En auðvitað gerum við okkur grein fyrir að þetta er íþyngjandi fyrir marga. Við hörmum það, þetta er erfitt fyrir alla og ég vona að þetta verði í síðasta skiptið sem við þurfum að skerða þjónustuna,“ segir hún.

Ekki í samræmi við áherslur

Anna Gunnhildur ítrekar að lokunin sé hvorki í samræmi við þá umræðu sem verið hefur í samfélaginu um geðheilbrigðismál né þær áherslur sem stjórnmálamenn hafa sagst hafa í þessum málaflokki. Hún hefur fullan skilning á því að ekki takist að ráða nægilega marga hjúkrunarfræðinga til starfa en veltir því fyrir sér hvort hugsanlega megi gera aðrar ráðstafanir, án þess að draga úr þjónustu. „Kannski gætu aðrar fagstéttir eins og til dæmis iðjuþjálfar eða félagsráðgjafar starfað á deildinni án þess að ganga í störf hjúkrunarfræðinga.“

Hún segir að lokum að þegar deildum sé lokað að hluta eins og nú hefur verið gert hafi fólk samband við Geðhjálp í meiri mæli. „Við veitum fólki auðvitað alla þá ráðgjöf og aðstoð sem við getum. En við getum aldrei komið í staðinn fyrir spítala, ekki frekar en nokkur annar.“