Minnisvarðar blekkinganna

Sú var tíð að mikilmennum þótti hæfa að reisa sjálfum sér alvöru og ekta minnisvarða. Alvöru mikilmenni létu reisa af sér styttur, helst í öllum borgum og jafnvel margar í stærstu borgunum! Ekki verra að stytturnar sýndu mikilmennið sitja ólman hest og sveifla sverði! Nú er þetta ekki lengur í tísku, jafnvel sjálfhverfustu stjórnmálamenn skynja að þeir kæmust ekki langt með styttur af sjálfum sér í hetjustellingum. Hvað þá?

 

Hvað geta menn gert til að reisa sér verðskuldaðan minnisvarða fyrir allan hetjuskapinn í þágu þjóðarinnar (því þetta eru jú allt óeigingjörn og fórnfús störf í þágu þjóðarinnar, viðurkennum við það ekki öll?! Þá rifjast upp fyrir þeim eitthvað um óbrotgjarna misnnisvarða. Sem mölur og ryð fá ekki grandað. \"Orðstírr deyrr aldregi\" þið vitið!

 

Er til nokkur önnur skýring á framgöngu leiðtoganna undanfarna daga og vikur? Veggjaldamálaráðherrann hefur snúið frá fyrri loforðum og boðar nú allsherjarlausnina veggjöld hér og veggjöld þar. Þau verða hans minnisvarði!

 

Skattamálaráðherrann gengur fram fyrir skjöldu og hækkar skatta sem aldregi fyrr, hvað sem líður fyrri stefnuyfirlýsingum og loforðum. Skattahækkanir verða hans minnisvarði!

 

Borgarstjórinn og bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu hreykja sér nú hátt yfir samgöngusáttmála sem þeir skrifuðu undir með ráðherrunum. Þar tókst þeim að búa til stóra fjárhæð með því að safna saman framkvæmdum langs tíma í einn sáttmála. En - þegar að er gáð eru þetta bara nýju fötin keisarans! Ef eitthvað eru fjárframlögin minni en verið hafa, miðað við framkvæmdir á ári og til að bæta einhverju við á að stórhækka skatta á alla vegfarendur með veggjöldum!

 

Þetta eru miklar hetjur og eins og slíkum hæfir fá þær marga minnisvarða: Umferðartafir, skattahækkanir og vanhæfni að leysa ferðavanda íbúanna.Fyrir þetta verður þeirra minnst. Verðskuldað.