Meirihluti lækna telja sig undir of miklu álagi

Mikill meirihluti lækna telur sig vera undir of miklu álagi með tilheyrandi streitueinkennum, truflandi vanlíðan og sjúkdómseinkennum. Rúmlega helmingi lækna hefur fundist að þeir geti ekki uppfyllt kröfur eða ráðið við tímaþröng í starfi og svefntruflanir á meðal þeirra eru algengar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fréttatilkynningu frá Læknafélagi Íslands, þar sem helstu niðurstöður könnunar á vegum félagsins eru reifaðar.

Árlegir Læknadagar verða haldnir í Hörpu í vikunni, frá 21. – 25. janúar, og þar verða niðurstöður þessarar viðamiklu könnunar á líðan og starfsaðstæðum íslenskra lækna kynntar og ræddar. Könnunin var unnin fyrir Læknafélagið í október síðastliðnum og tók til tólf mánaða tímabils.

Á tímabilinu hefur u.þ.b. helmingur lækna hugleitt það oft eða stundum að láta af störfum. Þó er ríflega helmingur lækna ánægður með starfsumhverfi sitt og sömuleiðis með stjórnun þeirrar deildar sem þeir starfa á.

Afstaða til launakjara skiptist í tvo svipað stóra hópa. 45 prósent svarenda voru mjög eða frekar ósammála því að laun þeirra væru sanngjörn en 42 prósent svarenda voru því mjög eða frekar sammála. Að meðaltali var vinnuvika um fjórðungs þátttakenda á bilinu 61-80 klukkustundir og fjögur prósent voru með yfir 80 unnar klukkustundir á viku. Einungis um fjórðungur allra starfsstöðva töldust vera hæfilega mannaðar en í um 72 prósent tilvika þóttu þær vera undirmannaðar.

Sérstaka athygli vekur að yfir 60 prósent lækna töldu staðsetningu Landspítala við Hringbraut óheppilega og þörf á nýju staðarvalsmati vegna byggingar nýs spítala.

Einelti og kynbundið ofbeldi sambærilegt öðrum starfsstéttum

Í tilkynningunni er tekið fram að „[e]inelti og kynbundið ofbeldi virðist því miður sambærilegt við margar aðrar starfsstéttir. Tæplega sjö prósent kvenna töldu sig hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti á vinnustað síðustu þrjá mánuðina og 47 prósent einhvern tímann á starfsævinni. Sambærilegar tölur hjá körlum voru eitt prósent og 13 prósent. Sjö prósent svarenda taldi sig hafa orðið fyrir einelti á síðustu þremur mánuðum og 26 prósent einhvern tímann á starfsævinni.“