Komdu skikki á svefntímann

Eitt vanmetnasta heilsuráðið varðar svefninn, sjálfa hugarróna sem fyllir líkamann orku og krafti fyrir annir morgundagsins. Æði margir fara bara að sofa þegar sá er gállinn á þeim, ekkert endilega þegar skrokkurinn kallar á hvíldina, heldur gjarnan svo seint að erfitt getur reynst að festa blund svo orð sé á gerandi. Það er afar brýnt fyrir allt líkamskerfið að koma skikki á sínar svefnvenjur, ekki síst í miðri viku því það er hjásaga að það dugi að vega upp lítinn svefn í miðri viku með því að sofa lengur fram eftir um helgar. Ítarlegar svefnrannsóknir sýna að festa í svefnlengd skiptir líkamann mestu máli - og það sem gerir honum hvað best er að lengja svefntímann á virkum dögum frekar en um helgar. Þjóðráð er að fara að sofa ekki seinna en klukkan tíu einn virkan dag í viku; koma sér í rúmið upp úr níu, lesa góða bók og ná höfginni fyrir tíufréttir sem skipta einmitt minna máli en hvíldin.