Jón baldvin fer kolrangt með staðreyndir í silfri dagsins um ees

Jón Baldvin Hannibalsson fór kolrangt með staðreyndir í viðtali í sjónvarpsþættinum Silfrið 25. nóvember 2018. Hann tekur undir þvæluna sem kemur úr Hádegismóum um „þriðja orkupakkann“ og styður þannig baráttuna gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ljóst er að fyrrum utanríkisráðherra er farið að förlast þegar kemur að ýmsum staðreyndum um EES.

 

Jón Baldvin segir að Íslendingar eigi og geti hafnað „þriðja orkupakkanum“. Það hafi Íslendingar gert í öðrum málum.

„Það er alveg á hreinu að við getum hafnað löggjöf sem að samrýmist ekki okkar þjóðarhagsmunum, án þess að það hafi einhverjar skelfilegar afleiðingar, við getum það,“ segir Jón Baldvin. Og hann spyr: „Hefur Evrópusambandið reynt að troða upp á okkur járnbrautarlöggjöfinni? Nei. Hefur Evrópusambandið, það er gríðarlega mikið af reglum um skipaskurðarsamgöngur í Evrópu, nei. Hvað með olíu og gas? Nei, ekki heldur. Við höfum varanlega... það dettur engum í huga að við eigum að yfirtaka þetta.\"

 

Þetta er auðvitað kolrangt hjá Jóni Baldvin. Hann veit að hann er ekki að segja satt enda var hann utanríkisráðherra og alþingismaður þegar EES samningurinn var samþykktur á Alþingi.

 

Hið rétta er að þeir EES bræður Jón Baldvin og Davíð Oddsson keyrðu í gegn ýmis lagaákvæði er lúta að járnbrautarlöggjöf á Íslandi. Dæmin þar eru ýmis. Ákvæði 48.–52. gr. laga um EES nr. 2/ 1993 fjalla um flutninga á járnbrautum, vegum og skipgengum vatnaleiðum. 

 

Annað dæmi eru nýlegri lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017. Þau voru samin af skoðanabróður þeirra, og baráttumanni gegn samvinnu Evrópuríkja, Jóni Gunnarssyni þá samgönguráðherra. Í frumvarpi Jóns segir segir beinlínis að efnið þeirra leiði af skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum:  „Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu og er því ætlað að tryggja eða styrkja lagastoð fyrir innleiðingu fimm EES-gerða er snúa að landflutningum.“  M.a. er vísað í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1370/2007 um almenna farþegaflutninga á járnbrautum og á vegum.

 

Í öðru lagi er líka rangt hjá Jóni Baldvin að það sé ekki til nein löggjöf í gildi á Íslandi vegna samganga um skipaskurði. Hann gleymir því að hann var utanríkisráðherra þegar grunnur var lagður að íslenskum lögum og reglum um skipgengar vatnaleiðir.  Menn ættu að geta flett upp á „lögum um flutninga á skipgengum vatnaleiðum vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu nr. 14/ 1996“.  Að auki eru ýmis ákvæði um þetta efni í lögunum um EES nr. 2/1993.

 

Í þriðja lagi er það rangt hjá Jóni Baldvin, fyrrum utanríkisráðherra, að það sé ekki nein EES löggjöf um olíu og gas í gildi á Íslandi. Fjölmargar reglugerðir sem m.a. fjalla um um olíu og gas eiga rætur sínar í EES. Dæmi um þetta er reglugerðir sem byggja á EES um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti nr. 124/2015; um gæði eldsneytis nr. 960/2016; og reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit nr. 550/2018. Þá eru fjölmargar reglur um raforku, orkuframleiðslu og olíuvinnslu byggja fölmargar á EES, s.s. lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/ 2000. Svo má lengi telja. Það vita allir þeir sem um þessi mál fjalla.

 

Jón Baldvin fer kolrangt með staðreyndir. Hann þarf að kannast við þau lög sem hann samþykkti sjálfur á sínum tíma. Ekki halda einhverju allt öðru fram, líkt og tíðkast hjá popúlistum samtímans.

rtá