Fjölmiðlastríð milli útvarps sögu og morgunblaðsins

Fram er komið að Viðar Guðjohnsen er einn virkasti aðstandandi Útvarps Sögu og hringir inn í símatíma stöðvarinnar flesta daga. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
 
Viðar er einn af fimm sem vilja leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar nú í vor. Blaðið segir að Viðar kynni sig sem “harðlínu hægri” og liggi ekki á skoðunum sínum.
 
Útvarp Saga studdi Miðflokkinn og Flokk fólksins fyrir Alþingiskosningarnar í október sl. Þessir tveir nýju flokkar fengu samtals 11 þingmenn. Sumir vildu halda því fram að Útvarp Saga hafi verið sigurvegari kosninganna.
 
Morgunblaðið býður nú fram Eyþór Arnalds stjórnarmann í útgáfufélagi blaðsins. Leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er að snúast upp í fjölmiðlastríð milli Útvarps Sögu og Moggans.
 
Í síðustu kosningum studdi Morgunblaðið Sjálfstæðisflokkinn sem tapaði 5 þingmönnum og Framsókn sem tapaði fylgi en hélt óbreyttum þingmannafjölda. Á sama tíma bættu flokkar Útvarps Sögu við sig 11 þingmönnum.
 
Menn skyldu ekki gera lítið úr vægi Útvarps Sögu í þessum kosningaslag. Reynslan frá síðasta hausti sýnir að Saga nær betur til kjósenda en Mogginn.
 
Viðar er gamall judokappi. Hann hefur keppt á Ólympíuleikum.
 
Mun hann nú skella Eyþóri og Mogganum ásamt hinum frambjóðendunum, Áslaugu, Villa og Kjartani?
 
Rtá.