Dauðsföll vegna sýklalyfjaónæmis

Dauðsföll hafa átt sér stað á Íslandi sem má rekja til sýklalyfjaónæmra baktería, segir Ólafur Guðlaugsson smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum í samtali við RÚV í gær. Hann segir fjölónæmar bakteríur vaxandi vandamál hér á landi líkt og annars staðar.

Í fréttaskýringaþættinum Kveik kom fram að sýklalyfjaónæmi er ein stærsta lýðheilsuvá samtímans og ef fram heldur sem horfir munu fleiri láta lífið um miðja þessa öld vegna þess en krabbameins. Í þættinum kom fram að ef ekkert verði að gert, gæti það endað með því að engin sýklalyf yrðu til.

Endurtekin meðferð með sýklalyfjum drepur næmustu bakteríurnar og skilur þær ónæmustu eftir.„Þetta eru bakteríur sem valda algengum sýkingum. Húðsýkingum, þvagfærasýkingum og öðrum ífarandi sýkingum. Þetta eru bakteríur sem eru hér og nú og síðan eru til ennþá erfiðari útgáfur af þessum sömu bakteríum víða erlendis,“ segir Ólafur.

Hann segir að um 20 sjúklingar séu í einangrun á spítalanum á hverjum einasta degi út af ónæmum bakteríum og að það sé ekki fólk sem er að koma frá útlöndum. Ólafur segir að lélegur aðbúnaður á spítalanum ýti undir dreifingu og að dæmi séu um að sjúklingar smitist af fjölónæmum bakteríum inni á sjúkrahúsinu, þó það sé að vísu ekki algengt.

Upp hafa komið tilvik þar sem bakteríur eru alónæmar og rekja má dauðsföll hérlendis til fjölónæmra baktería. „Alvarlegar sýkingar geta drepið fólk og það að meðhöndla sýkingar með bakteríum sem eru ónæmar er ennþá erfiðara.“ Hann segir þetta þó sem betur fer ekki algengt.

Ólafur segir almenning þurfa að huga að því að nota sýklalyf rétt, þ.e. einungis þegar þeirra er þörf og styðjast við leiðbeiningar. Einnig þurfi fólk að huga að bólusetningum við inflúensu og öðrum sjúkdómum, auk almenns heilbrigðis og hreinlætis.