Barninu refsað fyrir að benda á nekt keisarans

Eins og greint er frá hér á Hringbraut hefur Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata fengið áfellisdóm siðanefndar þingsins, sökin er að hún lét sér um munn fara eftirfarandi orð:
 „Nú er uppi rökstuddur grunur um það að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn á þessum efnum.“

Í þessari tilvitnuðu frétt hér á Hringbraut er líka upplýst að annar þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarrson, sagði efnislega það sama um Ásmund um leið og hann \"... óskaði eftir að Forsætisnefnd rannsakaði allan aksturskostnað þingmanna og Ásmundar Friðrikssonar sérstaklega.\" Hin svonefnda \"siðanefnd\" Alþingis hefur ekki gert athugasemd við orð Björns Leví og engin rannsókn hefur verið gerð á fjárfrekju Ásmundar né annarra þingmanna.

Þetta er allt hið merkilegasta mál. Til hvers er \"siðanefnd\" Alþingis? Á hún ekki að slá á puttana á þingmönnum þegar þeir fara út af sporinu? Það gerir hún ekki, sannarlega ekki!

Hringbraut hefur upplýst um gríðarlega mikla fjárfrekju nokkurra þingmanna, óútskýranlega með málefnalegum hætti.
Þessir þingmenn eru Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Ásmundur Friðriksson. Ætli séu væntanlegar samantektir um fleiri?

Þessir þingmenn hafa orðið uppvísir að því að nýta sér með hinum freklegasta hætti heimildir til að fá endurgreiddan kostnað vegna þingmennsku sinnar og búsetu. Um leið hafa þeir hagnýtt sér í þaula að reglurnar eru mjög rúmar og ekkert eftirlit með því hvernig þingmenn seilast með krumlur sínar í sameiginlega sjóði okkar.

Svo eru það aðrir sem hafa ýmislegt til saka unnið. Hér verður látið nægja að nefna þingmanninn og ráðherrann Svandísi Svavarsdóttur, sem hefur í tvígang verið sakfelld og dæmd fyrir valdníðslu í krafti embættis síns (þá sem umhverfisráðherra), fyrst í héraði og síðan í Hæstarétti. Engin \"siðanefnd\" hefur þó amast við henni eða gert athugasemd við að hún sat sem fastast áfram og situr enn þrátt fyrir dómana!

Nú gerist svo það að bent er á hið augljósa og þá skal það heita brot á reglum Alþingis! Þessu er helst hægt að jafna við ævintýrið um nýju fötin keisarans: Ef barninu sem benti á nekt keisarans (En, mamma, mamma! Hann er í engum fötum!) hefði verið varpað í dyflissuna fyrir þau orð en keisarinn átölulaust haldið áfram að þramma nakinn um strætin!

Nú skal Þórhildur Sunna fá á sig áfellisdóm fyrir að benda á hina mjög svo augljósu fjáfrekju Ásmundar! Á sama tíma heldur hann áfram að aka um götur og vegi og lætur okkur borga kostnaðinn!
   Er svo einhver enn hissa á að virðing Alþingis fari stöðugt þverrandi?!