Ásdís telur mikilvægt að skerða ekki fæðingarþjónustu hss: „ég hef samanburð af ljósmæðravaktinni í reykjavík og þetta er svart og hvítt“

Ásdís Inga Haraldsdóttir einkaþjálfari ákvað að skrifa fæðingarsögu sína í opnu bréfi til stjórnenda HSS í Reykjanesbæ.

„Það er svo gífurlega mikilvægt að þessi skerta þjónusta við barnshafandi mæður verði ekki skert aftur og að deildin haldist opin allan sólarhringinn. Við erum næstum því jafn mörg hér í Reykjanesbæ eins og á Akureyri en við erum ekki með fulla fæðingar vakt. Landspítalinn má ekki við auka álagi frá HSS,“ segir Ásdís Inga í samtali við Hringbraut.

Mætti skilningi allan sólarhringinn

„Ég var svo heppin alla meðgönguna að geta sótt alla þjónustu hér á ljósmæðravakt HSS í Reykjanesbæ.
Ég hafði sömu dásamlegu ljósmóður og á síðustu meðgöngu, hana Margréti Knúts og var líka svo heppin að hitta og kynnast flest öllum hinum sem eru hver annari yndislegri og vilja allt fyrir mann gera.“ Segir Ásdís.

Þá segist hún hafa geta hringt bæði dag og nótt og alltaf mætt skilningi og hlýju.

„Mér var alltaf boðið að koma strax upp eftir ef ég hafði áhyggjur. Þetta veitti mér svo mikið öryggi á meðgöngunni og ég var svo ótrúlega spennt fyrir því að eiga hérna í Reykjanesbæ þar sem er einstök og rólega orka og ótrúlega færar ljósmæður.“

Deildinni lokað á næturnar

Þegar Ásdís var gengin um 36 vikur á leið var deildinni lokað á næturnar á virkum dögum og eftir klukkan 20:00 um helgar.

„Þetta olli mér og fleiri konum kvíða og áhyggjum. Hvað ef ég færi af stað klukkustund fyrir lokun? Verð ég send til Reykjavíkur til þess að jafna mig eftir fæðinguna. Næ ég á landspítalann þegar ég fer af stað?“

Þessar ásamt mörgum fleiri spurningum brunnu á huga Ásdísar síðustu vikurnar fyrir fæðingu.

„Ég byrjaði að finna alvöru verki kl. 5:30 þann 27. september, vaktin opnaði klukkan 8:00 og ég bað til Guðs að verkirnir yrðu ekki verri fyrr en deildin hér í Keflavík myndi opna. Svo ég krosslagði lappir og píndi mig heima. Verkirnir urðu verri og á slaginu 8 hringi ég upp á HSS því ég varð að fá glaðloft. Þar taka á móti mér tvær dásamlegar ljósmæður Jónína og hún Inga, sem var svo stoð mín og stytta í fæðingunni.“

Hefur samanburð á milli HSS og LSH

Ásdís segir fæðingarstofuna á HSS heimilislega og fallega. Henni hafi liðið vel að mæta þangað sem hún telur gríðarlega mikilvægt.

„Inga skoðar mig og þá er ég strax komin með 7-8 í útvíkkun þegar ég mætti upp eftir. Ég fæ kalda bakstra, glaðloft, yoga tónlist og alla heimsins athygli frá ljósmæðrunum sem fylgdust MJÖG vel með. Nú hef ég samanburð af því að eiga barn á LSH og þetta er tvennt ólíkt, þar er svo gífurlega mikið að gera að ég upplifði allt annað þar.“

Fæðing Ásdísar á HSS gekk fljótt af en drengurinn hennar kom í heiminn klukkan 10:35 um morguninn og segir hún fæðinguna hafa verið dásamlega.

„Ég upplifði mikinn sængurkvenna grát með eldri strákinn sem tengdist því líka að fæðingin var ekki góð. Það sem ég upplifi núna eftir þessa meðgöngu og fæðingu er allt annað. Fæðingin var falleg og gekk vel, ég fékk ótrúlega mikinn stuðning frá ljósmæðrunum og það er einstakt að fá þá ljósmóður sem tók á móti barninu mínu heim til sín daginn eftir til að athuga með okkur. Öll þessi dásamlega þjónusta sem ljósmæðravakt HSS býður upp á er einstök. Ég hef samanburð af ljósmæðravakt í Reykjavík og þetta er svart og hvítt.“

Segir Ásdís að það sé gífurlega mikilvægt að skerða ekki þessa þjónustu né fjársvelta hana.

„Öll eigum við börn eða vorum börn í móðurkviði og líðan móður á meðgöngu og í fæðingu er mjög mikilvæg fyrir allt samfélagið. Ég er ekki sú eina sem upplifði hræðslu þegar loka þurfti vegna manneklu. Við erum ótrúlega margar og það er mikilvægt að þetta gerist ekki aftur. Ég hvet allar konur til að láta heyra í sér sem fundu fyrir lokun deildarinnar, því fleiri því betra.“