Uppskrift: ómótstæðilega ljúffengt brokkólípasta að hætti ítala sem þú verður að prófa

\"\"Í tilefni þess að á dögunum kom út bókinni „Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum“ þar sem sex matgæðingar og sælkerar í íslenska matarbloggaraheiminum leiða saman hesta sína hefur Sjöfn Þórðar fjölmiðlakona verið að heimsækja matgæðingana og fá þá til að ljóstra upp sínum uppáhalds vetrarrétti og sögunni bak við hann. Um er að ræða sex konur og Sjöfn er búin að heimsækja þrjár þeirra, Maríu Gomez, Berglindi Hreiðars og Önnu Eiríks. Sú fjórða í röðinni af sex er Lólý matar- og sælkerabloggari með meiru sem hefur mikið dálæti af ítalskri matargerð.

Lólý er mikill matgæðingur og nýtur sín bezt í eldhúsinu. Hún hefur einstaklega gaman að því að prófa sig áfram með nýja rétti og blómstrar þegar hún er komin á bragðið.  „ Fjölskyldan og vinirnir eru helstu tilraunadýrin hjá mér, en þau segjast öll hafa matarást á mér og segja aldrei nei þegar ég býð þeim að koma til mín í mat til að smakka á einhverju nýju og spennandi.  Mér finnst alltaf gaman að gleðja fólk með góðum mat og ekkert gleður mig meira en að fá fjölskyldu og vini í mat og sjá bros á vör hjá þeim eftir hvern munnbita,“ segir Lólý og brosir sínu fallega brosi.

Áttu þér þinn uppáhalds vetrarrétt?

„Einn af mínum uppáhalds réttum er brokkólípasta sem er inn á síðunni minni loly.is Þetta er svona einfaldur og ljúfur réttur sem hlýjar manni á köldum vetrarkvöldum.“ 

Hver er sagan bak við þennan rétt?  

„Þessi uppskrift er ein af þeim sem kom með mér heim úr einni af mörgum Ítalíuferðum mínum fyrir mjög mörgum árum síðan. Þetta er ekta ítölsk uppskrift sem er afar einkennandi fyrir ítalska matargerð. Þessi réttur er algjört uppáhald hjá allri fjölskyldunni og er orðin fastir liðir hjá vinum mínum líka.“

Eyðir þú meiri tíma í eldhúsinu á veturnar fremur enn á sumrin?

„Ég elska að vera að dunda mér í eldhúsinu og skiptir þá ekki máli hvaða árstími er. Það má frekar segja að maður eldi ólíka rétti á veturna en sumrin með einni undantekningu en það er að við höfum alla tíð grillað allan ársins hring.“

Hvað er það sem þér finnst skemmtilegast við veturinn?  

„Það er auðvitað það að geta haft kertaljós og kósý í myrkrinu og það er eitthvað svo ljúft að dunda sér inni í hlýjunni undir teppi með eitthvað sætt og gott með kaffinu og þá helst dásamlegar ítalskar Biscotti,“ segir Lólý dreymin á svipinn.

\"\"

Brokkólípasta að hætti Ítala

2 búnt ferskt brokkólí eða 1 poki frosið brokkólí
2 laukar
3 hvítlauksrif eða fleiri eftir smekk
salt og pipar eftir smekk
þurrkuð chillifræ (1 tsk milt, 2-3 miðlungs sterkt)
3 dl ólífuolía (setti 1/2 dl af chilliolíu frá Nicolas Vahé til að fá meiri styrk í þetta)
500 g spaghetti

Byrjið á því að sjóða brokkólíið upp úr söltuðu vatni þangað til það er mjúkt. Á meðan það sýður er gott að skera laukinn og hvítlaukinn smátt og steikja hann upp úr ólífuolíunni þangað til hann er mjúkur, kryddið vel með salti og pipar og chilipipar.
Þegar brokkólíið er soðið þá þarf að sigta það upp úr vatninu og setja það í skál því síðan nota sama vatnið til að sjóða spaghettíið í en það þarf að sjálfsögðu að bæta smá vatni saman við.

Þegar spaghettíið er soðið, hellið vatninu af, setja spaghettíið í skál og hellið yfir það ólífuolíunni með lauknum. Berið þetta fram með góðu brauði og salti og pipar og ekki má gleyma parmesanostinum.

Njótið vel.