Breytingar á fasteignaþættinum afsal

Fasteignaþátturinn Afsal á Hringbraut, hóf göngu sína í júní árið 2015. Þar hafa fasteignamálin verið rædd frá ýmsum sjónarhornum og oft eru fyrirspurnir frá áhorfendum teknar fyrir og þeim svarað af löggiltum fasteignasölum eða öðrum sérfræðingum í þættinum. Nú hefur orðið breyting á því Afsal verður framvegis hluti af stærri þætti á Hringbraut sem heitir Heimili. Sá þáttur verður frumsýndur kl.20.00 á Hringbraut í kvöld og verður klukkustunda langur. Fasteignamálin verða þó áfram þungamiðja þáttarins en í stað Rakelar Sveinsdóttur, mun Sigmundur Ernir Rúnarsson stýra nýjum og stærri þætti.

Rakel Sveinsdóttirsegist afar ánægð með þróun mála. Fasteignamálin séu málaflokkur sem allir hafi áhuga á og það hafi verið mikill sómi af því að Hringbraut hafi tekið þennan málaflokk sérstaklega fyrir, strax á upphafsmánuðum stöðvarinnar. Fasteignakaupin séu í flestum tilfellum stærstu kaup fólks á ævinni og heimilin það sem stendur fólki næst. Það sé því afskaplega ánægjulegt að sjá hvernig Hringbraut ætlar að bæta um enn betur, stækka þennan vinsæla þátt og bæta við umræðu um málefni sem viðkemur flestum heimilum landsins. 

,,Ég bíð spennt eftir því að setjast fyrir framan skjáinn í kvöld!” segir Rakel í lokin og hvetur áhorfendur Hringbrautar til að halda áfram að fylgjast með fasteignaumræðunni, sem og annarri umræðu sem viðkemur heimilum, á Hringbraut. Þá getur fólk áfram sent fyrirspurnir um fasteignamálin til Spyr.is, því þeim fyrirspurnum verður komið til þáttastjórnanda eins og við á hverju sinni.