Verður stokkað upp í ríkisstjórninni eftir leiðtogafundinn í maí?

Sá möguleiki er nú til skoðunar hjá Sjálfstæðisflokknum og Framsókn að fljótlega eftir leiðtogafundinn í maí verði Vinstri grænum skipt út fyrir Miðflokkinn, samhliða fleiri breytingum á ríkisstjórninni.

Katrín Jakobsdóttir hefur mjög glatað trausti og flokkur hennar svo miklu fylgi, samkvæmt öllum skoðanakönnunum, að tæpast er lengur bjóðandi að hún sitji áfram sem forsætisráðherra.

Vert er að átta sig á þeirri stöðu á Alþingi að Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Miðflokkurinn hafa samtals 32 þingmenn á bak við sig. Þá eru ekki taldar miklar líkur á því að Vinstri græn hefðu neina þá stöðu á þingi dygði til að mynda bandalag við núverandi stjórnarandstöðu um vantrauststillögu, enda dygði það ekki til.

Miðflokkurinn hefur tvo þingmenn. Kæmi til þessara breytinga hlyti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að taka við ráðherraembætti, yrði væntanlega utanríkisráðherra. Hinn þingmaður flokksins, Bergþór Ólason, fengi væntanlega formennsku í einhverri af fastanefndum þingsins.

Í þessari uppstokkun má ætla að Bjarni Benediktsson yrði forsætisráðherra, enda er flokkur hans með mestan þingstyrk. Þá hlyti Sigurður Ingi Jóhannsson að taka við hinu valdamikla embætti fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, yrði fullsæmd af því að taka við innviðaráðuneytinu af Sigurði.

Bæði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur fengju þá hvor sinn ráðherrann til viðbótar. Með því leystist ráðherrakrísa Sjálfstæðisflokksins þannig að Guðrún Hafsteinsdóttir kæmi inn án þess að Jón Gunnarsson þyrfti að víkja úr ríkisstjórninni.

Framsókn hlyti einnig að fá viðbótarráðherra sem væntanlega yrði Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra, en margir í flokknum vilja að hún verði varaformaður Framsóknar.

Komi til þessara mikilvægu breytinga á ríkisstjórninni blasir við að gera þær fljótlega eftir leiðtogafundinn. Þar fær Katrín Jakobsdóttir tækifæri til að láta ljós sitt skína eins og hana dreymir um – og svo hyrfi hún úr þessu háa embætti sem hún hefur enga stöðu til að gegna lengur.

- Ólafur Arnarson.