Útrunnar vörur rokseljast í krónunni

Talið er að tæplega þriðjungi allra matvæla á Íslandi sé hent ýmist af verslunum eða heimilum landsins. Krónan hefur í sumar gert tilraun með að bjóða fólki upp á vörur sem eru að renna út á tíma með góðum árangri.

Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld , en þar var sagt að á sama tíma og stór hluti mannkyns berjist við hungur og fátækt eigi sér stað mikil sóun á matvælum í hinum vestræna heimi. Á undanförnum árum hefur orðið vart hugarfarsbreytingar og víða hafa jafnvel verslanir verið opnaðar sem sérhæfa sig í að ýmist selja eða útdeila matvælum sem  komin eru á síðasta söludag.

Frétt stöðvarinnar gekk út á það að Krónan hafi gerty tilraun með að selja á mjög lágu verði nokkrar vörutegundir í sumum verslana sinna sem annars hefði verið hent. Kristinn Skúlason rekstrarstjóri Krónunnar og Kjarvals er ánægður með viðtökurnar: \"Þetta gengur rosalega vel, jákvæðar undnirtektir og viðskiptavinirnir taka þessu fegins hendi. Þetta eru vörur sem eru annað hvort að renna út eða útrunnar á dagsetningu og í stað þess að henda þeim bjóðum við þær á lágu verði,“ sagði Kristinn í fréttinni. 

Vöruúrvalið er kannski ekki mikið, enn sem komið er, aðallega krukku- eða flöskuvara,  en verðmunurinn er mikill. Algengt verð á þessum vörum er um 50 krónur fyrir krukku af sósu t.d. sem hefði áður kostað nokkur hundruð krónur.