Uppgreiðslugjald íls 10% af lánsupphæð

Það gæti komið ódýrara út fyrir fasteignaeigendur með húsnæðislán hjá Íbúðalánasjóði, að eignir fari a uppboð frekar en að greiða upp lánið hjá sjóðnum. Dæmi um þetta er tekið fyrir í þættinum Afsal sem sýndur verður á Hringbraut í kvöld.

Þáttinn má nú sjá hér á vef stöðvarinnar, en þar segir Ásdís Ósk Valsdóttir frá eign sem er á leið á nauðungaruppboð. Ef eigendum tekst að forða eigninni frá uppboði og selja, er þeim gert að greiða 1,9 milljónir króna í uppgreiðslugjald til Íbúðalánasjóðs af 17,5 milljóna króna láni, eða vel tíund af læansupphæð. Þetta þýðir að uppgreiðslugjaldið nemur tæpum 11%, en gjaldið myndi falla niður ef eignin færi á uppboð. Bæði Ásdís og Guðrún Antonsdóttir, sem einnig er gestur í þætti kvöldsins, segja þetta alveg út í hött og að landsmenn megi alveg taka þetta fyrir í fjölskylduboðum og fermingaveislum um páskana.

Í þættinum er einnig rætt við Sigrúnu Eiríksdóttur, sem nú er að selja sína eign. Hún segir frá því hvernig heimilið hefur spannað sögu heilla kynslóða, því sjálf ólst hún upp í þessu húsi og síðar hennar börn. Sala eigna getur einmitt oft verið eitthvað sem kallar fram mjög miklar tilfinningar en þátturinn er páskaþáttur Afsals og verður endursýndur um helgina og í páskafríinu. Umsjónarmaður þáttarins er Rakel Sveinsdóttir.