Nágrannavarsla er málið

Flest okkar búum í einhverju hverfi, innan um nágranna af öllu tagi á öllum aldri – og enda þótt þeir eigi að heita ólíkir er það sammerkt með þeim öllum að vilja búa í friði og öryggi. Sennilega kjósa þeir allir nágrannavörslu, en vandinn er bara sá að enginn hefur boðað til fundarins um að koma þvílíku kerfi á í grenndinni. Svo líða líklega vikur og mánuðir og oftast ár og kannski áratugir.


Þeir sem hafa komið sér upp kerfi af þessu tagi tala einu máli; öryggiskenndin í hverfinu eykst að miklum mun og svo er hitt sem skiptir kannski nokkru máli; samkenndin og samfélagið stækkar og eykst að því verðgildi sem mælt er í vináttu: Öllum verður einhvern veginn og næstum ósjálfrátt vænt um náungann og eftir fáeinar vikur verða menn þess áskynja að þeir eru orðnir málkunnugir frænkum og frændum og öfum og ömmum sem þurftu að líta við í næsta húsi til að vökva blómin á meðan venslafólkið var í fríi í útlöndum. Það merkilega við þessa vinsemd alla og öryggiskennd er að hún er ókeypis – og kostar aðeins einn í hópi nágranna sem kallar alla hina á fund.