Truflað flottar veitingar í systraafmæli og litasamsetningin fangar augað

Á dögunum hélt Berglind Hreiðarsdóttir, matar- og kökubloggari með meiru, stórglæsilega afmælisveislu fyrir dætur sínar og var um hina dásamlegustu systraafmælisveislu að ræða. Systurnar Hulda Sif og Elín Heiða áttu tveggja og tíu ára afmæli og Berglindi tókst að hrista fram úr erminni þessa glæsilegu afmælisveislu eins og myndirnar bera með sér. Listrænir hæfileikar hennar endurspegla kökuskreytingar og umgjörð veislunnar. Hlaðborð gómsætra veitinga trylltu gestina og fönguðu gestaugað langar leiðir. Við fengum að líta til hennar og fylgjast með. Þemalitir sem voru í forgrunni afmælisveislunnar var ferskjulitur, túrkísblár og gylltur.

\"\"

 

Hvernig undirbýrðu þig fyrir veisluhöldin?

„Varðandi undirbúning og þess háttar þá er ég alltaf að stúdera og hlakka til að halda veislur með góðum fyrirvara. Þema fer algjörlega eftir því sem stelpurnar vilja. Hulda Sif er auðvitað svo lítil að hún er ekki enn komin með skoðanir á þessu og Elín Heiða eiginlega orðin of gömul til að vilja einhverjar fígúrur og þess háttar. Þemað að þessu sinni kom því til þegar ég var að skoða Instagram og rakst á þessa mynd hér hjá Partývörum.“ Berglind var með þrjá liti í gangi, fallegan ferskjulit, túrkísbláan og gylltan og litatónarnir voru hinir fallegustu saman. „Mér fannst þetta svo skemmtileg litasamsetning og eitthvað sem ég hafði ekki prófað áður. Ég sýndi Elínu Heiðu þetta og hún var sammála svo þar með var þetta ákveðið og hausinn fór af stað með kökuskreytingar og annað tengt veislunni.“

\"\"

\"\"

 

Þegar það kemur að framkvæmdinni, baka, elda og skreyta, hvernig berðu þig að og forgangsraðar þú verkefnum?

„Ég reyni að vera ekki að finna upp hjólið þegar það kemur að veislum þar sem mikill tími fer í að skreyta bæði kökur og afmælisborð og óþarfi að eyða tíma í einhverja tilraunastarfsemi á slíkum tíma. Ég held mig oftast við súkkulaðiköku, vanilluköku, bollakökur, kökupinna, þegar ég hef tíma, rice krispies, popp og annað þess háttar á kökuborðið. Það er líka gott að koma með einfaldar og gómsætar lausnir sem allir geta framkvæmt og vorum við því með kleinuhringi á mörgum hæðum frá Krispy Kreme og vanilluköku á toppnum fyrir körfuboltastelpuna mína. Kleinuhringirnir voru mjög vinsælir og varð mikið eftir að kökum þar sem allir voru tjúllaðir í hringina. Pabbi gerði síðan fyrir þær púðursykurmarengsinn sinn fræga þar sem það er jú nauðsynlegt að hafa að minnsta kosti eina hnallþóru og ég hreinlega get ekki fengið nóg af þessari köku.“

\"\"

\"\"

 

Gerir þú allar veitingarnar meira og minna sjálf eða færðu aðstoð hjá fjölskyldumeðlimum?

„Varðandi aðrar veitingar þá er það misjafnt. Stundum fæ ég mömmu og tengdó til að gera heita rétti, ég hef verið með nachos kjúklingasúpu, grillaðar pylsur og hamborgara og síðan er frábær lausn að panta veitingar sem henta öllum og losna við þann undirbúning. Að þessu sinni var afmæli systranna síðdegis á föstudegi og ég vissi að allir væru svangir og þreyttir eftir vinnuvikuna. Við pöntuðum því sushi hjá Tokyo sushi og geggjaða mini hamborgara frá Roadhouse. Ostabakkinn var á sínum stað með hráskinku, salami, Óðalsostateningum, vínberjum, heitum Gullosti, brie, sultum og alls konar.“

\"\"

\"\"

Berglind segir að það sé mjög mikilvægt að vera vel undirbúin og byrja snemma að skipuleggja sig og nálgast þær vörur sem eiga að vera til staðar. Góður undirbúningur er lykillinn af því að allt gangi upp. „Ég var búin að sækja allar partývörur í tíma og dúllaði mér við að setja þetta upp með smá fyrirvara. Fallegu kökuskiltin, bæði á kökur og kleinuhringi, pantaði ég hjá Hlutprent og fannst vinkonum hennar Elínar Heiðu körfuboltaskiltið hennar svakalega flott. Ég bakaði alla kökubotna og bollakökur vikunni áður og setti strax í frystinn, tók þá síðan út daginn áður og setti kökurnar saman. Ég setti einmitt í fyrsta skipti Highlights á Instagram hjá mér og þar geta áhugasamir séð að hluta til hvað gekk hér á í undirbúningi. Fólk sendi mikið af fyrirspurnum og fannst gaman að fá að fylgjast svona með svo ég á pottþétt eftir að gera meira af þessu í framtíðinni.“ 

\"\"

\"\"

\"\"

\"\"

\"\"

Hægt er að fylgjast með köku- og matargerð Berglindar á heimasíðu hennar Gotterí og gersemar, www.gotteri.is, og þið verðið ekki svikin.

Myndir: Berglind Hreiðarsdóttir