Spurningar sem illugi þarf að svara

Ráðherrar á Íslandi hafa sagt af sér fyrir minni sakir en bornar hafa verið á Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra á síðustu vikum og mánuðum. Athygli vekur að þrátt fyrir ítrekaðar lykilspurningar svarar Illugi í engu fjölmiðlum um mál sín sem vitaskuld varða allan almenning enda snúast þær um hæfi hans til að sinna einu mikilvægasta embætti þjóðarinnar.
 
Náttfari hefur útbúið sinn spurningalista:
 
1. Hve miklar greiðslur hefur Illugi fengið samtals frá Orku Energy eða dótturfélögum eða eigendum félagsins? Hvernig skiptast þær niður á einstök ár? Voru þær greiddar beint til Illuga eða til félaga í hans eigu? Hafa verið greiddir tekjuskattar af þeim?
 
2. Hefur Illugi sinnt frekari erindrekstri fyrir Orku Energy frá því hann varð menntamálaráðherra, annan er þann er laut að fyrirgreiðslu félagsins í Kína fyrr á þessu ári?
 
3. Upplýst hefur verið að áhvílandi skuldir á íbúð Illuga sem hann seldi svo aðaleiganda Orku Energy hafi verið 53 milljónir króna. Hvernig fékk hann svo hátt lán fyrir íbúðinni og hverjir voru lánveitendur? Höfðu þeir áður leiðrétt höfuðstól skulda eða fellt niður skuldir sem Illugi hafði stofnað til? Hvað af upphæðinni er í skilum, hvað í vanskilum?
 
4. Hefur Illugi átt sæti í stjórnum á vegum Orku Energy, dótturfélögum eða tengdum félögum, heima eða erlendis?
 
5. Er hagsmunaskráning Illuga á vef Alþingis sem skyldi í ljósi tengsla hans við Orku Energy?
 
Almenningur á heimtingu á því að ráðherrar svari svona lykilspurningum, enda er þögnin í þessum efnum alltaf grunsamlegri en svo að nokkrum ráðherra sé hún sæmandi.