Sápan þarf á óhreinindum að halda

Algengustu mistök fólks þegar það raðar óhreinu leirtaui, glösum og hnífapörum í uppþvottavélina á heimilinu eru að hreinsa óhreinindin um of af áhöldunum, en fyrir vikið virkar þvottaefnið ekki sem skildi.

Þetta kemur fram hjá Eyþóri Eyjólfssyni, tækjasérfræðingi Heimilisins sem er á dagskrá Hringbrautar í kvöld, en hann þekkir það af áralöngu starfi sínu sem sölumaður stórra og smárra raftækja hjá versluninni Smith & Norland að uppþvottavélin gerir fátt annað en að freyða þegar fólk skolar of vel af diskunum og öðru því sem það setur í vélina. Vissulega beri að taka helstu matarleifarnar af diskunum, en fita og skán hjálpi virkni þvottaefnisins í vélinni.

Hann segir ennfremur í þætti kvöldsins að mikilvægt sé að nota þar til bær hreinsiefni fyrir uppþvottavélarnar að minnsta kosti annan hvern mánuð til að þrífa þær sjálfar að innan, en alltof margir gleymi því að véear sem þrífi meira og minnaa alla daga þurfi líka að þrífa svo þær nái að skila sínu verki með glans.

Hann segir líka mikilvægt að skilja vélar sem þvo fötin á heimilinu opnar á milli þess sem þær séu í gangi - og það sama eigi við um þvottaefnishólfið. með því að leyfa belgnum og hólfinu að anda vel á milli verka myndist síður sveppir og önnur óáran í vélunum - og til að vera nokkuð viss í þeim efnum sé húsráð að setja vélarnar reglulega á níutíu gráðu prógramm, tómar þessvegna, til að eyða óværunni, en sveppir drepist við yfir sextíu gáðu hita.