Raðar þú rétt inn í ísskápinn þinn?

Það skiptir miklu máli að raða rétt inn í ísskápinn og setja einungis þau matvæli sem þarf að geyma á köldum stað inn í ísskáp, eins og mjólk, rjóma, osta, smjör, kjöt, fisk, álegg, grænmeti og fleira. Jafnframt er nauðsynlegt að matvælin fari á réttan stað inn í ísskápinn til tryggja bestu geymsluna.  Ástæðan er sú að hitastig í ísskáp er svolítið breytilegt. Kaldast er næst frystihólfi ef það er til staðar en hlýjast fjærst því. Þetta verður að hafa í huga þegar matvælum er komið fyrir í ísskápnum.

Allt sem er geymt er í ísskápnum þarf að vera í lokuðum ílátum. Búa skal vel um hverja tegund. Ef um lyktar- eða bragðsterk matvæli er að ræða verður að hafa þau í loftþéttum umbúðum.

  1. Í frystihólfi eru geymd frystmatvæli. Þau þurfa að fara strax þangað inn eftir að þau eru keypt. Ekki er gott að fyrsta aftur matvæli sem hafa þiðnað.
  2. Efst í ísskáp skal setja álegg, kjötvörur, fisk o.fl.
  3. Í miðju ísskáps skal setja drykki, mjólkurvörur, egg (ef það er ekki sérstakt eggjahólf), ávaxtadrykki, brauðvörur o.fl.
  4. Neðst í ísskáp skal setja ávexti og grænmeti.

Innan á hurðinni eru oftast hillur þar sem geyma má það sem þarf ekki mikinn kulda.  Þar eru gjarnan sósur og olíur geymdar og jafnvel drykkjarföng ef betur fer um þau þar.

Þetta skiptir máli til tryggja geymsluþol matvælanna og gæðin. Mikilvægt er líka að hafa gott skipulag á röðun inn í ísskápinn eftir flokkun og nota glær ílát, hvort sem þau eru úr gleri eða plasti. Reyna að hafa allt sýnilegt og umfram allt að halda ísskápnum hreinum. Þrífa hann reglulega með eiturefnalausri blöndu.