Ómissandi að fá páskaegg í morgunmat og ískalda mjólk með

Flest okkar höldum við í ákveðnar hefðir og siði þegar kemur hátíðisdögum eins og páskum, jólum, sumardeginum fyrsta og svo mætti lengi telja. Við höfðum samband við Kristínu Edwald hæstarréttalögmann hjá LEX, okkar Mörthu Stewart, og fengum hana til segja okkur frá sínum páskahefðum og ljóstra upp uppáhaldsrétti, köku eða öðru sem hún eldar eða bakar í tengslum við hátíðarnar.  

Kristín tók vel í beiðni okkar og skellti strax í köku eða eins og hún orðaði það sjálf: „Ég skellti í eina köku og notaði tækifærið og fékk æskuvinkonur mínar úr Álftamýrarskóla eða „Dömuskóla Dísu“ eins og við köllum okkur gjarnan í sunnudagskaffi.“

\"\"

Hvað er eftirminnilegast við páskahátíðina í bernsku þinni?

„Borða páskaegg í morgunmat og drekka ískalda mjólk með.“

Hver er þinn uppáhalds páskamatur?

„Lambalæri eins og mamma eldaði það með brúnuðum kartöflum, grænum baunum og piparsveppasósu.“

Heldur þú í ákveðnar hefðir í tengslum við páskana?

„Páskahefðin er að njóta daganna með fjölskyldu og vinum. Ómissandi er að fá páskaegg í morgunmat á páskadag og drekka ískalda mjólk með.“

Skreytir þú heimilið þitt á páskunum?

„Ekki mikið en gulir túlípanar og litlar páskaliljur í potti koma mér í páskaskap.“

Páskaliturinn þinn?

„Gulur og pastellitir.“

Borðar þú páskaegg?

„Jáhá!“

Uppáhalds páskaeggið þitt?

„Páskaegg frá Nóa af því að mamma og pabbi gáfu mér alltaf egg frá Nóa. Svo eru páskaeggin frá Hafliða algjört æði líka.“

Áttu þína uppáhalds hnallþóru eða brauðrétt sem þú ert alltaf með á páskunum?

„Á páskunum finnst mér gaman að leggja aðeins meira í baksturinn og baka kökur sem tekur aðeins lengri tíma að gera. Ég er hins vegar ekki fastheldin á eina uppskrift heldur finnst gaman að prófa eitthvað nýtt sem ég get dundað mér við í eldhúsinu.“

Viltu gefa okkur uppskriftina af þeim rétti, köku eða brauðrétti sem þú útbýrð/bakar ávallt á páskunum?

„Í ár tók ég forskot á sæluna og bakaði Gulrótarköku með ostakökuívafi. Æskuvinkonur mínar úr Álftamýrarskóla komu í morgunkaffi og við áttum mjög skemmtilega og afslappað stund saman. Alveg eins og það á að vera. Þær gáfu líka kökunni góða einkunn.“


Gulrótarkaka með ostakökuívafi

 Gulrótarkakan

1 1/2 bolli hveiti

1 bolli sykur

1 tsk. kanill

1 tsk. salt

1 tsk. matarsódi

3/4 bolli góða matarolía

2 stór egg

1 1/2 bolli rifnar gulrætur

1/2 bolli rúsínur

1/2 bolli saxaðar valhnetur eða pekan hnetur

 

Ostakakan

500 g Mascarpone eða annar góður rjómaostur

3/4 bolli sykur

2 egg

1/2 tsk. vanilludropar

1 1/2 tsk. hveiti

1/4 tsk. salt

1/2 bolli sýrður rjómi

 

Kremið

1 bolli flórsykur

4 msk. mjúkt smjör

125 g mjúkur rjómaostur

1/2 tsk. vanilludropar

Hitið ofninn í 180°C. Smyrjið smelluform. Útbúið gulrótarkökudeigið. Blandið saman hveiti, sykri, kanil, salti og matarsóda í stórri skál. Bætið eggjunum í og loks gulrótum, rúsínum og hnetum. Hrærið með sleif þar til allt hefur blandast. 

Útbúið því næst ostakökublönduna. Byrjið á að þeyta rjómaost og sykur vel saman.  Þeytið eggin út í eitt í einu og bætið svo vanilludropum, hveiti, salti og sýrðum rjóma við.

Setjið 2/3 af gulrótarkökudeiginu í smelluform, því næst 1/3 af ostakökublöndunni, þá afganginum af gulrótarkökudeiginu og loks fer það sem eftir er af ostakökublöndunni yfir.

Bakið í eina klukkustund eða þar til að toppurinn á kökunni gefur létt eftir ef þrýst er á hann. Látið kökuna kólna í forminu í eina klukkustund og svo í að  minnsta kosti fjórar klukkustundir í kæli eða yfir nótt. Áður en kakan er borin fram er kremið þeytt vel saman og því svo smurt á kökuna. 

„Í þetta skiptið setti ég smá gulan matarlit í kremið og skreytti með páskaeggjum. Á öðrum árstíma myndi ég hafa kremið ólitað og skreyta til dæmis með hnetum,“ segir Kristín að lokum.