Nýr og skýr meirihluti á alþingi

Ekki þarf að undra að hvorki Katrínu Jakobsdóttur né Birgittu Jónsdóttur hafi tekist að mynda fimm flokka ríkisstjórnir. Á Alþingi í dag hefur komið glögglega í ljós að langt er á milli Vinstri grænna, Pírata og Samfylkingar annars vegar og Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hins vegar. Síðartöldu flokkar ganga nú í fullkomnum takti við ríkisstjórnarflokkana; Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk.

Til skarpra orðaskipta kom milli Benedikts Jóhannessonar, formann Viðreisnar, og Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, en Benedikt setti út á vinnubrögð Katrínar, sagði hana leika einleik. Katrín var ekki sátt og frábað sér athugasemdir um afasöm vinnubrögð.

Margir þingmenn gerðu grein fyrir atkvæðum sínum, þegar kosið var um einstaka þætti bandormsins. Pólitískar línur birtust hægt og bítandi. Meirihluta þingsins skipa 21 þingmaður Sjálfstæðisfokks, átta þingmenn Framsóknarflokksins, sjö þingmenn Viðreisnar og fjórir þingmenn Bjartrar framtíðar. Væntanlega verður úr þessu bandalagi ríkisstjórn. Hvort Framsókn verði munstruð um borð eða hvort henni verður haldið á hliðarlínunni, mun skýrast.

Í minnihluta eru þá tíu þingmenn VG, tíu þingmenn Pírata og þrír þingmenn Samfylkingar. Taka verður fram að minnihlutinn er fjarri samstíga í mörgum málum.

Athygli vekur að allir þingmenn greiða atkvvæði á sama veg og félagar þeirra í viðkomandi þingflokkum.