Lýðræðið í gíslingu þingsins

Meðan það fólk sem þjóðin kaus til Alþingis kemur sér ekki saman um ríkisstjórn í landinu situr fallin ríkisstjórn. Vanmáttur þingflokkanna framlengir líf ríkisstjórnar sem kjósendur höfnuðu í kosningunum í lok október.

„Það er í eðli sínu ólýðræðislegt að ríkisstjórn, sem hefur verið hafnað í kosningum og misst meirihlutann, sitji mjög lengi sem starfsstjórn. Auðvitað getur hún það í einhvern tíma en það þarf þá að vera á meðan menn sjá einhvern annan möguleika á stjórnarmyndun,“ þessi orð Eiríks Bergmann Einarssonar, prófessor í stjórnmálafræði, má lesa í Fréttablaðinu í dag.

Undir þetta skal tekið. Frammistaðan er óviðunandi. Þó starfsstjórn hafi ekki sömu möguleika og hefðbundin ríkisstjórn, situr eigi að síður ríkisstjórn sem féll og í henni eru ráðherrar sem sóttust ekki eftir endurkjöri og eiga ekki sæti á Alþingi. Úr þessu verður að greiða.

Ríkisstjórnin sem sat árin 2009 til 2013 missti þingmenn fyrir borð og var orðin gagnslítil síðasta hlutann. Ein af ástæðum þess hversu erfitt sú stjórn átti, var hversu mikið hún vildi framkvæma. Svo mikið að litlar sem engar lýkur voru til að það myndi takast. Í þeim viðræðum sem hingað til hafa farið fram virðist vilja margra til að endurtaka mistök þeirrar ríkisstjórnar. Að yfirhlaða óskalistann svo að um megn verði að fylgja honum eftir. Meðan situr starfsstjórn, stjórn sem kjósendur höfnuðu.

„Það ríkir nokkuð erfið stjórnarkreppa í landinu, án þess að hér sé nokkurt neyðarástand. Flokksleiðtogarnir eru á flótta undan því hugtaki en það er augljóslega það hugtak sem lýsir ástandinu sem hér er uppi,“ segir Eiríkur Bergmann í Fréttablaðinu.

Segja má að hversu langt er á milli foringja íslenskra stjórnmála sé ekki síður vont en sitjandi starfsstjórn. Meðan fátt eða ekkert gerist er nýkjörið Alþingi með lýðræðið í gíslingu, ekki vegna þess að vilji þess standi til þess, nei, frekar vegna vanmáttar. Og hvað næst? Valdatíma starfsstjórnarinnar verður að linna.

(Rúmar sex vikur eru frá kosningum).