Kunna hótelstjórar að reikna?

Já, kunna hótelstjórar að reikna? Svarið er eflaust; já. Allavega flestir þeirra. Kristó­fer Oli­vers­son, for­stjóri Center Hotels, hefur reiknað og reiknað og niðurstaðan hans er sú að ætla má að rösk­lega 20 millj­arðar króna fari um svarta hag­kerfið vegna gististarfsemi í miðborg Reykja­vík­ur. Í 101 Reykjavík. Já, bara vegna þessa.

„Viðmið Kristó­fers er að um 6.000 her­bergi séu í þeim 3.000 íbúðum í miðborg­inni sem eru leigðar út. Með áætlaðri nýt­ingu skili það 1,5 millj­ón­um gistinátta sem ættu að gefa 21,5 millj­arða króna í heild­ar­tekj­ur. Starf­semi þess­ari ættu að fylgja eðli­leg­ar greiðslur svo sem virðis­auka­skatt­ur, tekju­skatt­ur, trygg­inga­gjald, fasta­eigna­skatt­ar og fleira slíkt. Þess­ir pen­ing­ar skili sér ekki í sam­eig­in­lega sjóði nema að hluta.“

En svo er ekki, það er megin niðurstaða í reikningum Kristófers. Það sem hér er er byggt að viðtali við Kristófer í Morgunblaðinu í dag.

„Þetta er orðið um­fangs­mikið neðanj­arðar­hag­kerfi sem mok­ar inn pen­ing­um,“ seg­ir Kristó­fer sem hef­ur áætlað þess­ar töl­ur með aðstoð end­ur­skoðanda. Hann vill að tekið verði á þess­um vanda og tök­um náð á óskráðri starf­semi. Stór­hækk­un gistinátta­gjalds til að fjár­magna upp­bygg­ingu grunnþjón­ustu í land­inu vegna fjölg­un­ar ferðmanna sé vafa­söm hug­mynd.

„Við höfum sleppt fram af okkur beislinu og því miður hafa menn svolítið horft á þetta með blinda auganu,“ segir hann og vitnar til viðtals Þjóðbrautar við Má Guðmundsson seðlabankastjóri. Kristófer bendir réttilega á að Már sagði að það væri í höndum ferðaþjónustunnar og stjórnvalda að taka á því sem miður fer.

Kristófer bindur vonir við að tekið verði á málum um áramótin, þegar ný lög taka gildi. Bendir á að þar sé gert ráð fyrir að leyfisnúmer séu birt í öllum auglýsingum. Stjórnvöld geti auðveldlega gengið að þeim sem það geri ekki. „Það verður að fylgja  þessum lögum eftir,“ segir hann.

Kristófer er gagnrýninn á hugmyndir um að stórhækka gistináttagjald til að byggja upp innviði vegna fjölgunar ferðafólks. Bendir hann á að hótelin sem beri þennan skatt séu aðeins lítill kimi í atvinnulífinu og hugmyndir um að láta þessar 1.223 kennitölur byggja upp innviði landsins, fjármagna sveitarfélög og greiða í byggðasjóð séu algerlega óraunhæfar. Samkeppnisstaðan sé þegar mjög skökk og ef leggja eigi nýja skatta á ferðaþjónustuna þurfi að ná til fleiri aðila en löglega rekinna gististaða.

Þarna kemur afar knýjandi spurning. Ef þeir sem starfa í svarta hagkerfinu, en þiggja endalaust úr hinu eðlilega hagkerfi, borga ekki skatta einsog þeim ber, hver gerir það þá?

Jú, við hin.